Enski boltinn

Bony skaut Swansea áfram á Old Trafford

Mynd/NordicPhotos/Getty
Wilfried Bony skoraði sigurmark Swansea gegn Manchester United í uppbótartíma á Old Trafford í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar í dag. Fabio, vinstri bakvörður Manchester United fékk rautt spjald þegar stutt var til leiksloka og náðu gestirnir að nýta sér liðsmuninn á lokamínútum leiksins.

Gestirnir frá Wales náðu forskotinu strax á tólftu mínútu þegar Wayne Routledge lyfti boltanum snyrtilega yfir Anders Lindegaard sem stóð í marki Manchester United í stað David De Gea. Það tók heimamenn aðeins fjórar mínútur að jafna metin, Javier Hernandez potaði þá fyrirgjöf Alexander Buttners yfir línuna af stuttu færi.

Vinstri bakvörðurinn, Fabio Da Silva kom inná í lið Manchester United í stöðunni 1-1 þegar korter var eftir af leiknum en hann stoppaði stutt. Aðeins fimm mínútum síðar fauk hann af velli með rautt spjald eftir ljóta tæklingu á Jose Canas.

Við þetta færðu leikmenn Swansea lið sitt framar á völlinn og náðu að skora sigurmarkið í lok venjulegs leiktíma. Wilfried Bony var mættur inn í vítateig til að skalla fyrirgjöf Routledge framhjá Lindegaard.

Sama hvað heimamenn reyndu á lokamínútum leiksins náðu þeir ekki að ógna marki Swansea og lauk leiknum því með 2-1 sigri gestanna. Þetta var fimmti tapleikur Manchester United á tímabilinu á heimavelli.  Þetta er aðeins í annað skiptið síðan 1985 sem Manchester United dettur út í þriðju umferð enska bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×