Innlent

Töf á vitnaverndarúrræðum í mansalsmálum

Þorgils Jónsson skrifar
Ekki hefur enn verið lokið við gerð verkferla og lausna varðandi vernd vitna í mansalsmálum, sem átti að liggja fyrir í lok síðasta árs.
Ekki hefur enn verið lokið við gerð verkferla og lausna varðandi vernd vitna í mansalsmálum, sem átti að liggja fyrir í lok síðasta árs.
Ekki liggja enn fyrir verkferlar og lausnir varðandi vernd vitna í mansalsmálum, sem er hluti af aðgerðaráætlun ríkisins um aðgerðir gegn mansali, þrátt fyrir að ferlar og lausnir hafi átt að liggja fyrir fyrir lok síðasta árs.

Í áætluninni, sem tekur til áranna 2013 til 2016, segir meðal annars að lögregla þurfi „að koma í veg fyrir að manseljendur eða glæpasamtök nái að þagga niður í vitnum eða neyða þau til að gefa rangan vitnisburð. Í ljósi þessa þarf að þróa betri úrræði fyrir vitnavernd“.

Verkefnið er á forræði innanríkisráðuneytisins, en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á úrræðin hjá ríkislögreglustjóra. Þar er verið að skoða málið út frá lögfræðilegum álitaefnum, til dæmis hvort þurfi að breyta lögum. Lögð er áhersla á að ljúka málinu sem fyrst og er miðað við lok næsta mánaðar.

Tafirnar eru sagðar orsakast af því að verið sé að vanda til verka og málið metið út frá reynslunni hér heima og erlendis.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir í samtali við Fréttablaðið að vitanlega sé mikilvægt að hafa ákvæði varðandi vitnavernd í slíkum málum.

„Við í Stígamótum höfum í Kristínarhúsi unnið með mörgum konum sem taldar eru tengjast mansali og engin þeirra hefur treyst sér til að vitna eða segja sannleikann um sína sögu. Það er auðvitað að hluta til vegna þess að það er búið að tryggja þögn þeirra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×