Innlent

Biðla til sveitar að kosta djákna

Þorgils Jónsson skrifar
Fjórar konur sem búa á dvalarheimilinu Höfða hafa biðlað til Hvalfjarðarsveitar að kosta stöðu djákna sem annars verður lögð niður.
Fjórar konur sem búa á dvalarheimilinu Höfða hafa biðlað til Hvalfjarðarsveitar að kosta stöðu djákna sem annars verður lögð niður. Mynd/Dvalarheimilið Höfði
Til greina kemur að Hvalfjarðarsveit komi að því að kosta áframhaldandi starf djákna við Dvalarheimilið Höfða á Akranesi.

Til stóð að staða djáknans, sem hafði hingað til numið 20% af fullri stöðu, legðist af frá og með 1. apríl, en það vildi vistfólk ekki sætta sig við. Þess vegna rituðu fjórar konur úr Hvalfjarðarsveit sveitarstjórninni bréf þar sem þess var farið á leit að hreppurinn kæmi að kostnaðinum við að halda þjónustu djáknans.

„Við teljum starfsemi djáknans mjög mikils virði fyrir okkur íbúana á Höfða,“ segir í bréfi kvennanna, „og okkur þætti miður ef hún legðist af. Því er það einlæg ósk okkar að þið í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar sæjuð ykkur fært að styrkja þessa starfsemi út árið.“

Laufeyju Jóhannesdóttur, sveitarstjóra Hvalfjarðarsveitar, var í framhaldinu falið að taka erindið upp við bæjarstjóra Akraness og framkvæmdastjóra Höfða, en í samtali við Fréttablaðið sagði Laufey að hugmyndir væru uppi um að aðilarnir þrír myndu skipta með sér kostnaðinum, sem yrði tæpar 400.000 krónur á hvern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×