Innlent

„Mjög skemmtileg upplifun“

Birta Björnsdóttir skrifar
Það lagði afar góðan ilm úr einum af heitu pottinum í Laugardalslauginni fyrr í dag þegar gestum laugarinnar bauðst að baða sig uppúr tei.

„Þetta er í tengslum við sýningu í Spark-Gallerí sem opnar á miðvikudaginn kemur klukkan 5. Við hönnuðirnir sem tökum þátt vorum að vinna út frá tei. Ég fór að hugsa um te og íslenska temenningu, hvernig er hún. Í Bretlandi drekkur fólk te til að ylja sér, en við förum í sund til að ylja okkur," segir Hildur Steinþórsdóttir, arkitekt.

„Te er fullt af andoxunarefnum og vítamínum. Þetta er líka bara skemmtileg upplifun og vatnið verður svona silkimjúkt. Svo ilmar þetta líka mjög vel," segir Sólrún Reginsdóttir, hjá Tefélaginu.

Áhugasamir geta merkt það inn í dagbókina sína að aftur verður boðið upp á tepottinn í Laugardalslauginni þann 29. mars næstkomandi.

Sérfræðingar á Þjóðminjasafninu

Greiningardagur fór fram í Þjóðminjasafninu fyrr í dag en þar bauðst almenningi að mæta með gamla gripi til greiningar hjá sérfræðingum safnsins. Þetta er gert til gagns og gamans fyrir eigendur munanna, sem vilja fræðast um uppruna og aldur þeirra, en einnig þykir sérfræðingum Þjóðminjasafnsins gaman að sjá marga af þeim áhugaverðu gripum sem prýða heimili landsmanna.

Fjölmenni á matarmarkaði

Mikill fjöldi landsmanna lagði leið sína í Hörpuna um helgina en þar fór fram vetrarmatarmarkaður. Fjöldi innlendra matvælaframleiðenda kynntu og seldu vörur sínar og var úrvalið afar fjölbreytt. Lakkrís og kjöt, edik og sultur og ostar og pylsur var meðal þess sem gladdi bragðlauka gesta og gangandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×