Innlent

Fréttamenn vísa ásökunum Elínar á bug

Jakob Bjarnar skrifar
Hallgrímur Indriðason hafnar því alfarið að fréttamenn RÚV séu útsendarar Samfylkingarinnar.
Hallgrímur Indriðason hafnar því alfarið að fréttamenn RÚV séu útsendarar Samfylkingarinnar.
Hallgrímur Indriðason, formaður Félags fréttamanna, segir ásakanir Elínar Hirst alþingismanns úr lausu lofti gripnar; starfsmenn fréttastofu Ríkisútvarpsins gæti hlutleysis sem og flestir blaða- og fréttamenn.

Vísir greindi í morgun frá ásökunum Elínar Hirst alþingismanns þess efnis að fréttastofa RÚV væri hlutdrægt í umfjöllun sinni um hið svokallaða gallabuxnamál. Ásakanir Elínar eru alvarlegar, ekki síst í ljósi þess að hún var árum saman starfsmaður fréttastofunnar og starfaði hluta þess tíma sem fréttastjóri.

"Það er alltaf alvarlegt þegar fréttamenn eru sakaðir um að draga taum einhvers þegar þeir eiga að vera hlutlausir. Sama hver á í hlut. En ég vísa því alfarið á bug að fréttamenn á fréttastofu RÚV séu ekki hlutlausir. Fólk hefur kannski meira orðið vart við ásakanir þess efnis frá fólki sem er hægra megin í stjórnmálunum, og í leiðaraskrifum Morgunblaðsins, en slíkar ásakanir hafa vissulega komið frá öðrum geirum í pólitíkinni líka, en ég vísa því alfarið á bug að fréttamenn á RÚV séu útsendarar einhvers eins stjórnmálaflokks. Sú er ekki raunin."

Hallgrímur segir í þessu felast það að hann vísar ásökunum Elínar á bug. Hann á síður von á því að Félag fréttamanna, sem samanstendur af fréttamönnum sem starfa á Ríkisútvarpinu, muni bregðast við þessu máli sem slíku. "En það hafa þær raddir heyrst, eftir því sem ásakanirnar hafa orðið harðari gagnvart okkur að við séum ekki að gæta hlutleysis, þá hefur aukist þrýstingur á að við bregðumst við sem heild, með einhverjum hætti. Og það er eitthvað sem við munum skoða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×