Innlent

Norðlægar áttir í kortunum fyrir Verslunarmannahelgina

Hrund Þórsdóttir skrifar
Eins og sjá má í meðfylgjandi frétt hafa fréttastofu borist upplýsingar um 15 hátíðir sem haldnar verða víða um landið en listinn er örugglega ekki tæmandi. Búist er við fjölmenni á stærstu hátíðunum, en meðal þeirra sem notið hafa mikilla vinsælda eru Mýrarboltinn á Ísafirði, Síldarævintýri á Siglufirði, Ein með öllu á Akureyri, Neistaflug í Neskaupsstað og Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þá geta þeir sem vilja fást við eitthvað óhefðbundið t.d. fylgst með traktorstorfæru á Flúðum, svo eitthvað sé nefnt. Á netsíðunni verslunarmannahelgin.is má finna ýmsar upplýsingar um dagskrá helgarinnar.

Hörður Orri Grettisson, sem situr í þjóðhátíðarnefnd, segir stemmninguna í Eyjum góða. „Við reiknum með mjög svipuðum fjölda og á þjóðhátíðina í fyrra sem gekk mjög vel fyrir sig. Sú þjóðhátíð var sú þriðja fjölmennasta frá upphafi. Ætli við séum ekki að gæla við tólf til þrettán þúsund manns í dalinn í ár,“ segir Hörður. Sunnudagsferðir á Þjóðhátíð eru nær uppseldar og því var ákveðið að bjóða í fyrsta sinn upp á laugardagsferðir. „Þú kemur með Herjólfi til Vestmannaeyja á laugardegi og ferð til baka aftur um morguninn, á sunnudagsmorguninn, með Herjólfi.“

Hrafn Guðmundsson veðurfræðingur segir veðurútlit fyrir helgina eðlilega misjafnt eftir landssvæðum. „Það eru norðlægar áttir í kortunum þannig að það verður líklega skýjað að mestu á norður- og austurlandi og kannski fremur svalt miðað við árstíma en á suður- og vesturlandi er yfirleitt nokkuð gott veður og milt, gæti náð upp í 17 18 gráður á suðurlandi ,“ segir hann. Hrafn gerir ekki ráð fyrir mikilli úrkomu. „Nema kannski helst þá á aðfararnótt laugardags eða á laugardaginn. Þá gæti komið úrkomusvæði yfir norðausturhlutann um tíma en annars tiltölulega þurrt þótt það sé skýjað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×