Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fram - KR 2-1 | Myndasyrpa úr Laugardal

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Laugardalsvelli skrifar
Alan Lowing úr Fram og Guðmundur Reynir Gunnarsson KR-ingur í baráttunni í Laugardalnum í kvöld.
Alan Lowing úr Fram og Guðmundur Reynir Gunnarsson KR-ingur í baráttunni í Laugardalnum í kvöld. Myndir/Daníel
Fram varð í kvöld fyrsta liðið til að sigra KR í sumar. Fram vann viðureign liðanna 2-1 á Laugardalsvelli. Er þetta fyrsti sigur Fram á KR á heimavelli í fjögur ár.

Fyrri hálfleikur var opinn og skemmtilegur þar sem bæði lið fengu fjölda færa en Fram skoraði eina mark fyrri hálfleiks eftir frábæra skyndisókn þar sem Almarr Ormarsson lék upp hægri kantinn og fann Hólmbert Aron Friðjónsson sem skoraði með góðu skoti.

Jafnræði var með liðunum framan af hálfleiknum en eftir að Fram skoraði á 26. mínútu var liðið mun sterkari aðilinn í leiknum og hefði hæglega getað farið með enn betri stöðu en 1-0 í hálfleik.

Fram missti Ólaf Örn Bjarnason af velli í hálfleik vegna meiðsla og varð liðið varnarsinnaðara við það. KR færði sig framar og sótti nánast látlaust allan seinni hálfleikinn.

Það skilaði árangri þegar Haukur Heiðar Hauksson jafnaði metin á 65. mínútu en Kristinn Ingi Halldórsson tryggði Fram sigurinn með marki eftir skyndisókn tíu mínútum síðar.

Sam Hewson sendi langa sendingu inn fyrir vörn KR þar sem Kristinn Ingi stakk Guðmund Reyni Gunnarsson af og potaði boltanum framhjá hikandi Hannesi Þór Halldórssyni í marki KR.

KR náði ekki að skapa sér færi eftir að Fram komst yfir á ný í og virkaði aldrei líklegt til að jafna leikinn þrátt fyrir að vera mikið með boltann.

Almarr: Vorum eins og klettar„Þetta var baráttu sigur út í eitt. Við vorum hvorki betra né verra liðið á vellinum þó þeir hafi sótt meira,“ sagði Almarr Ormarsson sem lagði upp fyrra mark Fram í kvöld.

„Þeir dældu boltanum fram og vonuðust að einhver kæmist í það. Við vorum eins og klettar og sérstaklega eftir við komumst í 2-1. Við ætluðum að halda því og gerðum það.

„Við höfum verið í vandræðum með að nýta færin. Við erum að skapa þau en við skorum tvö í kvöld og sem betur fer er það nóg en jú við hefðum getað skoraði fleiri mörk.

„Auðvitað er maður smeykur við að KR refsi þegar maður nýtir ekki færin, þeir eru góðir í því og vorum nokkrum sinnum nálægt því en við hentum okkur fyrir allt og börðumst eins og ljón. Ömmi (Ögmundur) varði líka vel,“ sagði Almarr sem eins og fyrr segir lagði upp fyrra mark Fram í leiknum.

„Stundum er maður heppinn og hittir á rétta ákvörðun. Ég sá Lennon hlaupa og hugsaði um að gefa á hann. Svo öskraði Hólmbert og mér fannst hann vera í betra færi til að gefa á. Við höfum talað um horfa frekar á seinna hlaupið. Það er oft frírra og Berti nýtir svona færi vel. Það var auðveldari sending á hann en Lennon,“ sagði Almarr.

Rúnar: Tókum leikinn yfir í seinni„Það er leiðinlegt að tapa fótboltaleikjum. Það var orðið langt síðan en það kemur alltaf að þessu. Maður er sár og svekktur með úrslitin þó fyrri hálfleikur hafi ekki verið neitt sérstakur hjá okkur,“ sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR í leikslok.

„Fram stjórnaði ferðinni síðustu 15 mínútur fyrri hálfleiks og sköpuðu sér hættuleg færi og voru verðskuldað yfir í hálfleik.

„Við tökum leikinn alveg yfir í seinni hálfleik og jöfnum eins og við ætlum okkur að gera en síðan urðum við full ákafir í að skora sigurmarkið og fengum fyrir vikið eitt í andlitið,“ sagði Rúnar en bæði mörk Fram komu eftir skyndisóknir.

„Við vitum að þegar við spilum framarlega á vellinum að við fáum okkur skyndisóknir. Fram er með eldfljóta framherja og einn stóran með þeim.

„Álag vegna Evrópukeppni hafði ekki áhrif á okkur í kvöld. Við þurfum að reyna að sjá til þess að leikmenn séu í toppstandi á milli leikja og nái að hvíla sig. Við þurfum líka að ná að stilla upp réttu liði og sjá hvort það heppnist, það gerir það ekki alltaf en ef maður horfir á seinni hálfleikinn í dag þá held ég að munurinn sé að við hlupum aðeins meira en þeir og sköpuðum fleiri færi og keyrðum yfir þá. Það dugði ekki til því Framarar voru mjög skynsamir í sínum leik og vörðust vel og beyttu hættulegum skyndisóknum,“ sagði Rúnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×