Íslenski boltinn

Bara einn leikur af tólf sem eru eftir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis, hefur fundið fyrir góðum stuðningi stjórnar knattspyrnudeildar Fylkis þrátt fyrir slæmt gengi í upphafi Íslandsmótsins.

Fylkir er í næstneðsta sæti deildarinnar með þrjú stig, rétt eins og botnlið ÍA en þessi lið mætast einmitt í Árbænum klukkan 19.15 í kvöld.

„Það eru gríðarlega mikilvæg stig í boði fyrir okkur - þó svo að þetta séu bara þrjú stig eins og í öðrum leikjum,“ sagði Ásmundur í samtali við Vísi í dag. „Þó þetta sé vissulega stór leikur fyrir okkur þá er hann bara einn af tólf sem eru eftir. Við erum bara að reyna að safna stigum.“

Ásmundur segir að leikmenn séu vel stemmdir fyrir slaginn gegn ÍA og að æfingar hafi gengið vel. „Ég trúi ekki öðru en að menn verði klárir fyrir þennan leik,“ segir hann en Fylkir er eina liðið í Pepsi-deild karla sem hefur enn ekki unnið leik. Liðið hefur þar að auki ekki fengið stig á heimavelli í sumar.

Þrátt fyrir allt þetta nýtur Ásmundur trausts stjórnar knattspyrnudeildarinnar og á ekki von á öðru en að þannig verði það áfram.

„Við höfum verið að tala mikið saman og funda út af leikmannamálunum. Það er í skoðun að styrkja hópinn í félagaskiptaglugganum [sem opnaði í dag] og hugsanlega munum við fá erlenda leikmenn til liðsins.“

„Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi frá stjórnarmönnum, þrátt fyrir erfiðar og leiðinlegar aðstæður, og er ég mjög ánægður með það. Það hefur verið gott að vinna með þessum mönnum og hafa þeir stutt vel við bakið á mér og mínum leikmönnum.“

Ásgeir Börkur Ásgeirsson, sem hefur verið í láni hjá norska liðinu Sarpsborg 08, er væntanlegur aftur til landsins á morgun. Þá er Kjartan Ágúst Breiðdal enn frá vegna meiðsla og verður ekki með í kvöld, að sögn Ásmundar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×