Innlent

Flugvallarvinir horfa til prófkjöra og kosninga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Stuðningsmenn flugvallarins munu beita sér fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, hver með sínum hætti, til að tryggja flugstarfsemi áfram í Vatnsmýri. Þetta segir Friðrik Pálsson, einn forvarsmanna undirskriftasöfnunar sem hófst í dag.

Flugvélar voru að koma og fara og farþegar streymdu út og inn í Flugfélagsafgreiðslunni á sama tíma og talsmenn félagsins „Hjartað í Vatnsmýri" kynntu söfnun undirskriftanna. Þeir sögðu málið brýnt og markmiðið væri að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri, þannig að allar þrjár flugbrautir héldust áfram.

Friðrik sagði á blaðamannafundi ljóst að sá gríðarlegi fjöldi sem stæði á bak við þessi sjónarmið, að flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýri, gæti tæplega látið það líðast að einhver þröngur kjarni lemdi það í gegn að flugvöllurinn yrði látinn víkja. Friðrik bætti síðan við:

„Við skulum ekki gleyma því að það eru kosningar framundan í borgarstjórn."

Hann kvaðst þó aðspurður í viðtali við fréttamann ekki vera að boða sérstakt framboð um flugvallarmálið.

„Við viljum hins vegar fyrst og fremst leggja áherslu á það að fólk fái tækifæri til að segja hug sinn núna, áður en menn fara til dæmis í prófkjör, vegna þess að sú skoðanakönnun sem var framkvæmd árið 2001, og var rangtúlkuð stórkostlega, henni hefur verið hampað alla tíð síðan."

Spurður hvort hópurinn hyggist þá beita sér óbeint, til dæmis með því að stuðla að kjöri flugvallarsinna í borgarstjórn, svarar Friðrik að það segi sig sjálft:

„Ég lít á þetta sem stórmál. Ég finn það að mjög margir, sem standa að þessu máli, líta á það sem afskaplega mikilvægt, bara gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla landsmenn. Þeir munu auðvitað beita sér með sínum hætti. Til þess eru kosningar."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×