Fótbolti

Klopp búinn að hafa samband vegna Eriksen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Frank de Boer, stjóri Ajax í Hollandi, segir að kollegi sinn hjá þýska liðinu Dortmund hafi haft samband við sig vegna Danans Cristian Eriksen.

Eriksen hefur verið sterklega orðaður við Dortmund eftir að það varð ljóst að Mario Götze muni fara til Bayern München í lok tímabilsins.

„Jürgen Klopp hringdi í mig í síðustu viku til að óska mér til hamingju með titilinn. Hann spurði mig líka um Cristian Eriksen,“ sagði De Boer við hollenska fjölmiðla.

„Það vita allir að þetta hafi kannski verið minn síðasti leikur með Ajax,“ sagði Eriksen sjálfur um helgina. „Ég væri til í að spila fyrir félag eins og Dortmund. Ég held að ég myndi passa vel inn í liðið.“

„Fyrir nokkrum árum fannst mér þýska deildin ekki henta mér. En hún hefur batnað á síðustu árum og það segir sitt að tvö þýsk lið séu í úrslitum Meistaradeildarinnar. Þýska deildin gæti þess vegna verið sú besta í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×