Fótbolti

Scharner samdi um feitan bikarbónus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Austurríkismaðurinn Paul Scharner tók á sig launalækkun til að koma sem lánsmaður til Wigan á miðju tímabili. En hann hafði góða tilfinningu fyrir gengi liðsins í ensku bikarkeppninni.

Scharner var í liði Wigan sem vann 1-0 sigur á Manchester City í úrslitum ensku bikarkeppninnar nú um helgina. Sigurinn færir honum væna búbót.

„Þegar ég kom til baka í janúar hafði ég grun um að félagið gæti gert eitthvað sérstakt. Ég samdi því um sérstakan bikarbónus,“ sagði Scharner sem var í fjögur ár hjá Wigan áður en hann fór árið 2010. Hann er nú lánsmaður frá Hamburg í Þýskalandi.

„Þetta var nokkuð stór bónus og þýddi að ég þurfti að taka á mig lækkun í grunnlaunum. En ég taldi þetta tímabil síðasta möguleika minn til að spila á Wembley.“

„Ég leyfði mér því bæði að dreyma um Wembley og gera daginn enn betri með góðum fjárhagslegum ávinningi.“

Scharner leyndi ekki tilfinningum sínum eftir sigurinn um helgina. „Ég grét í fimm mínútur. Þetta var svo tilfinningaþrungið að það var ótrúlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×