Innlent

Engar alvarlegar aukaverkanir vegna HPV bólusetninga

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Sóttvarnalæknir segir engin alvarleg tilfelli vegna bólusetninga gegn HPV veirunni hafa komið upp hér á landi.
Sóttvarnalæknir segir engin alvarleg tilfelli vegna bólusetninga gegn HPV veirunni hafa komið upp hér á landi.
16 ára áströlsk stúlka varð ófrjó og fór á breytingarskeiðið þremur árum eftir að hún var bólusett gegn HPV veirunni. Frá þessu greinir fréttasíðan Life Site News. Þegar er búið að bólusetja 6 til 7 þúsund íslenskar stúlkur.

Bólusetningar á íslenskum stúlkum hófust hér á landi árið 2011 og þegar er búið að bólusetja þrjá árganga eða um 6 til 7 þúsund stúlkur.



„Þessi umfjöllun er það sem kallað er „case report“ þar sem er verið að skrifa um þetta eina tilfelli," segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hjá Landlæknisembættinu. Ég get ekki séð að menn taki mjög djúp í árinni með þessu. Það er læknir í Ástralíu sem telur að bólusetningin sé ein orsökin en tekur fram að í 90% tilfella með svona sjúkdóma, þá er orsökin ekki þekkt.“

„Það er ómögulegt að fullyrða eitt né neitt um þetta. Bandaríkjamenn eru til dæmis nýbúnir að gera upp bólusetningar þar við HPV, þar sem er búið að gefa yfir 50 milljónir skammta af bóluefninu og þessi sjúkdómur sem getið er um er alls ekki algengari hjá bólusettum en óbólusettum stúlkum."

„Ef það væri eitthvert vandamál tengt þessu bóluefni, þá kæmi þetta ekki upp í bara eitt skipti og ekki meir. Það er ekki hægt að draga ályktir af svona einu tilfelli. Ef að bóluefnið væri að valda einhverri ófrjósemi, væri það að koma fram hjá fleiri stúlkum sem engin vitneskja er um.“

„Það hafa komið upp tilfelli, þar sem liðið hefur yfir stúlkur eftir bólusetningu. Það er þekkt að slíkt gerist á þessum aldri eftir bólusetningu og er ekkert tengt þessari bólusetningu sérstaklega. Þetta er tengt sprautunni, virðist vera meira tengt þessari athöfn með nálina og sprautuna en bóluefnið sjálft.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×