Enski boltinn

Tottenham hefði getað hagnast um 900 milljónir með sölunni á Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Reading reyndu ítrekað að kaupa landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson til félagsins frá Tottenham. Brian McDermott, stjóri liðsins, staðfesti að félagið hefði gert þrjú tilboð, sem öllum hefði verið hafnað.

Staðarblöð í Reading greindu frá því að tilboðið hefði hljómað upp á rúmar tíu milljónir punda. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var lokatilboð Reading tólf milljónir punda, rétt tæplega 2,4 milljarðar ísl. kr.

Tottenham keypti Gylfa í sumar á 7,5 milljónir punda samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins, eða 1,5 milljarða króna. Samkvæmt þessu hefði Tottenham því getað hagnast um 900 milljónir króna á Gylfa á aðeins hálfu ári.

Eigandi Reading er Anton Zingarevich, sem frestaði för sinni frá Englandi í gær til að reyna að ganga frá kaupunum. „Hann reyndi allt sem hann gat. Við vorum öll spennt fyrir þeim möguleika að fá Gylfa aftur en hann er leikmaður Tottenham í dag og góður leikmaður þar að auki," sagði McDermott.

Gylfi kom til Reading á sextánda aldursári árið 2005 og var hjá félaginu í fimm ár. Þaðan fór hann til Hoffenheim í Þýskalandi en var svo seldur til Tottenham í sumar, eftir að hafa slegið í gegn sem lánsmaður hjá Swansea á seinni hluta síðasta tímabils.

Gylfi hefur fengið fá tækifæri í byrjunarliði Tottenham til þessa en greinilegt er að forráðamenn liðsins hafa mikla trú á honum og telja að hann verði því mikilvægur á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×