Enski boltinn

Wenger í sérflokki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arsene Wenger.
Arsene Wenger. Mynd/NordicPhotos/Getty
Tottenham og West Brom eru í leit að nýjum stjóra eftir að Andre Villas-Boas og Steve Clarke voru reknir á dögunum. Fimm stjórar hafa fengið að taka pokann sinn á leiktíðinni og ljóst að þolinmæði eigenda ensku úrvalsdeildarfélaganna gagnvart mönnunum í brúnni er lítil.

Eftir að Sir Alex Ferguson lét af störfum í vor eftir 27 ár í starfi hjá Manchester United ber Arsene Wenger, stjóri Arsenal, höfuð og herðar yfir kollega sína í deildinni þegar kemur að lengd starfsferils. Frakkinn hefur stýrt Arsenal frá haustinu 1996 þegar hann tók við liðinu af Bruce Rioch. Forveri Wengers hékk í starfi í eitt ár áður en hann fékk að fjúka.

Sá líftími er í takt við þann sem stjórar á Englandi og víðar búa við. Reyndar eru laun stjóranna af þeirri stærðargráðu að enginn ætti að missa svefn yfir starfsskilyrðum þeirra.

Helmingur stjóranna í ensku úrvalsdeildinni hefur verið skemur en eitt ár í starfi. Sá sem hefur verið næstlengst í starfi er Alan Pardew, stjóri Newcastle. Sá enski heldur upp á þriggja ára afmæli í starfi hjá þeim svörtu og hvítu í mánuðnum.

Meðalstarfsaldur stjóranna átján sem stýra liðum í ensku úrvalsdeildinni í dag er rétt rúm tvö ár. Starfsaldur Wengers skekkir myndina töluvert. Sé hann ekki talinn með er meðalstarfsaldur hinna sautján þrettán mánuðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×