Innlent

Hundruð MR-inga á fund ráðherra

Eva Bjarnadóttir skrifar
MR-ingar funduðu með menntamálaráðherra
MR-ingar funduðu með menntamálaráðherra
Nemendur Menntaskólans í Reykjavík gengu fylktu liði að menntamálaráðuneytinu í gærdag og afhentu menntamálaráðherra undirskriftalista þar sem aðstöðumun skólans gagnvart öðrum framhaldsskólum er mótmælt.

Í yfirlýsingu þeirra sagði að framlög ríkisins til Menntaskólans í Reykjavík væru mun lægri en til sambærilegra framhaldsskóla og var þess krafist að munurinn yrði leiðréttur í fjárlögum ársins 2014. Menntamálaráðherra tók við undirskriftalistanum og fundaði í kjölfarið með nemendafélögum skólans.

Birna Ketilsdóttir, inspector scholae í MR, telur að rúmlega fimm hundruð nemendur hafi mætt í menntamálaráðuneytið í hádegishléi skólans í gær. Þá hafi nærri allir nemendur skólans skrifað undir yfirlýsinguna, eða tæplega átta hundruð manns.

„Á fundi nemendafélaganna með ráðherra voru málefni skólans rædd. Ráðherra útskýrði að skólanum væri ekki mismunað. Notað sé sama reiknilíkan fyrir alla skóla, en í því séu breytur sem reynist óheppilegar fyrir MR," segir Birna.

„Við komum fram okkar skoðun á málinu og ráðherrann sagðist ætla að fara betur yfir þetta. Boltinn er því hjá þeim núna," segir hún. Birna kveðst stolt af samnemendum sínum sem hafi sýnt mikinn baráttuhug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×