Innlent

Lögum um forföll á þingi er ekki fylgt

Stígur Helgason skrifar
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir að þingið gangi ekki sérstaklega á eftir því við þingmenn hvers vegna þeir boða forföll af þingi, jafnvel þótt þingskaparlög kveði á um að þingforseti skuli meta nauðsyn forfalla.

Fjarvera Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra af þingi undanfarið hefur verið til umræðu, meðal annars á þinginu sjálfu, í vikunni. Þau svör hafa fengist að Sigmundur sé í fríi en ekki hvar eða hvers eðlis fríið sé.

Í 65. grein þingskaparlaga segir þetta: „Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina.“

Einar segir þó að þetta sé ekki gert. „Þetta hefur alltaf verið praktíserað þannig að þingmenn tilkynna fjarvistir eða forföll án þess að þingið gangi síðan nokkuð frekar eftir því af hvaða toga það er. Þannig að það er auðvitað bara í sjálfsvald hvers þingmanns sett, og það á jafnt við um ráðherra sem aðra þingmenn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×