Lífið

Frestuðu tökum vegna reiðhjólaóhapps

Sara McMahon skrifar
Óheppinn Gunnar Kristjánsson fer með hlutverk Óla litla í Fólkinu í blokkinni. Hér sést hann tilbúinn í tökur fyrir fyrsta þáttinn.
Óheppinn Gunnar Kristjánsson fer með hlutverk Óla litla í Fólkinu í blokkinni. Hér sést hann tilbúinn í tökur fyrir fyrsta þáttinn.
Sjónvarpsþáttaröðin Fólkið í blokkinni hefur göngu sína í Sjónvarpinu á sunnudag. Þáttaröðin er byggð á samnefndu skáldverki eftir Ólaf Hauk Símonarson. Kristófer Dignus leikstýrir þáttunum og að hans sögn gekk á ýmsu á meðan á tökum stóð.

Gunnar Kristjánsson fer með hlutverk Óla litla í þáttunum og þurfti að fresta síðustu tökudögunum um þrjár vikur eftir að pilturinn datt af reiðhjóli. „Hann fékk gat á hausinn og mar í andlitið og við þurftum að fresta síðustu tökudögunum á meðan hann jafnaði sig, greyið. Írónían í þessu öllu er sú að hann leikur hrakfallabálk í þáttunum og í fyrstu senunni í fyrsta þætti fær hann myndarlegt gat á hausinn – á nákvæmlega sama stað og hann datt,“ segir Kristófer.

Aníta Briem fer einnig með hlutverk í þáttunum og reyndist nauðsynlegt að taka upp eitt atriði með Gunnari áður en hún flaug til síns heima. „Þetta var mikið púsluspil en við leystum þetta með því að láta hann bera sólgleraugu og passa upp á að hann sneri alltaf sömu hliðinni að myndavélinni.“

Fyrr á þessu ári fóru fram áheyrnarprufur þar sem hátt í 600 krakkar freistuðu gæfunnar. Gunnar var að lokum valinn úr þeim hópi til að fara með hlutverk Óla.

„Gunnar hafði bæði hæfileika og svo var svipur með honum og hinum í „fjölskyldunni“ og það spilaði einnig inn í ráðninguna,“ segir Kristófer að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.