Lífið

Regína Ósk sest á skólabekk

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Regína Ósk Óskarsdóttir er aftur sest á skólabekk eftir 16 ára hlé.
Regína Ósk Óskarsdóttir er aftur sest á skólabekk eftir 16 ára hlé. fréttablaðið/valli
„Mig langaði bara að prófa eitthvað nýtt og krefjandi,“ segir söngkonan Regína Ósk Óskarsdóttir sem hóf nýverið nám í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík.

Regína hefur ekki stundað nám í sextán ár, eða frá því hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð.

„Ég hafði lengi reynt að finna eitthvað nám sem ég hafði áhuga á. Þetta er nám í verkefnastjórnun, gæðastjórnun og upplýsingatækni sem á eftir að nýtast manni í mörgu,“ segir Regína og bætir við: „Maður er aldrei of seinn að byrja að læra,“ segi ég alltaf við börnin mín.“

Regína er með mörg járn í eldinum því auk þess að stunda námið af krafti kennir hún einnig söng við Söngskóla Maríu Bjarkar og kemur reglulega fram á tónleikum. Hún segir að námið muni ekki taka tíma frá tónlistinni enda stundi hún fjarnám við skólann.

„Maður hægir aldrei á í músíkinni.“

Regína hefur verið að semja tónlist heima hjá sér og segir að ný plata gæti litið dagsins ljós á næsta ári. „Það er alveg mögulegt að það komi plata á næsta ári,“ segir hún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.