Lífið

Bókasafnsdagurinn er í dag

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir segir bókasöfn landsins kappkosta að veita sem besta þjónustu og nýta tækninýjungar.
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir segir bókasöfn landsins kappkosta að veita sem besta þjónustu og nýta tækninýjungar.
Íslensk bókasöfn halda upp á bókasafns-daginn í dag í tengslum við Alþjóðadag læsis. Þetta er í þriðja sinn sem dagurinn er haldinn og í ár er lögð áhersla á mikilvægi og margbreytileika íslenskra bókasafna.

"Á Íslandi eru nú um 300 opinber bókasöfn og upplýsingamiðstöðvar. Starfsemi þeirra er afar fjölbreytt og þau þjóna ólíkum notendahópum,“ segir Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður. „Stærð safnanna er afar misjöfn, sum eru með nokkur hundruð rit, en önnur ráða yfir miklu magni bóka og ýmis konar gagna. Sum söfnin þjóna afmörkuðum hópum eins og Hljóðbókasafn Íslands, en önnur þjóna heilu byggðarlögunum, eins og Amtsbókasafnið á Akureyri sem þjónar íbúum bæjarins og raunar landinu öllu með ýmsum hætti.“



Ingibjörg segir mikinn metnað meðal starfsmanna bókasafna og alltaf sé verið að leita leiða til að bæta þjónustuna og nýta nýjustu tækni. „Meðal starfsfólks bókasafnanna hefur ævinlega verið lögð mikil áhersla á samstarf og að finna leiðir til að veita betri þjónustu. Og þrátt fyrir fjölbreytileikann, mismunandi starfsemi og ólíka notendahópa hefur tekist að þróa merkilegar vefþjónustur sem eru mikið notaðar. Þekktust þeirra er líklega Gegnir sem er sameiginlegt bókasafnskerfi fyrir allt landið og rekið af Landskerfi bókasafna. Þar er meðal annars hægt að sjá öll þau gögn sem bókasöfnin eiga og hvort þau séu til útláns. Annað þekkt verkefni er Landsaðgangurinn eða hvar.is, þar sem allir landsmenn hafa aðgang að rúmlega 20.000 erlendum vísinda- og fræðatímaritum, auk gagnasafna og alfræðirita á borð við Encyclopedia Britannica. Vel yfir milljón greinar voru sóttar í þetta efni á síðasta ári.“



Í tilefni dagsins mun starfsfólk bókasafna velja uppáhalds handbókina sína. Ingibjörg segir að birtur verði listi yfir vinsælustu titlana. „Við hvetjum fólk til að fylgjast með því og öðru því sem bókasöfnin hafa upp á að bjóða, en allar upplýsingar um starfsemi þeirra er að finna á bokasafn.is.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.