Innlent

Bærinn styðji íbúa gegn háspennulínu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Háspennulínur gnæfa yfir Vallahverfi í Hafnarfirði, íbúum þar til lítillar ánægju.
Háspennulínur gnæfa yfir Vallahverfi í Hafnarfirði, íbúum þar til lítillar ánægju. Fréttablaðið/GVA
„Það getur verið erfitt að sofa við opinn glugga hér í hverfinu vegna hávaða frá tengivirkinu,“ segir Pétur Pétursson, íbúi í Vallahverfi í Hafnarfirði.

Háspennulínur liggja í jaðri Vallahverfis og að álverinu í Straumsvík. Pétur segir að samkvæmt samkomulagi Hafnarfjarðar og Landsnets hafi háspennulínurnar átt að vera horfnar í síðasta lagi árið 2011 og tengivirki við Hamranes nokkru síðar. Nú hafa bæjaryfirvöld hins vegar gefið Landsneti frest til ársins 2016 að hefja niðurrifið. Verkinu á að vera lokið í síðasta lagi á árinu 2020.

Í svari til Péturs segir skipulagsstjóri Hafnarfjarðar að tímasetningin sé háð framkvæmdum Landsnets við svokallaðar Suðvesturlínur, sem tengjast uppbyggingu stóriðju í Helguvík.

Pétur hefur reynt að fá bæjaryfirvöld til að standa með íbúunum en ekki raforkufyrirtækinu eins og honum finnst þau gera.

„Það er skýrt samkomulag um að þessar línur áttu að vera farnar árið 2011 og óþarfi af bænum að gefa það eftir bara af því að það hentar Landsneti að bíða,“ segir Pétur. Hann lét til sín taka á íbúafundi í júní.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.


„Ég benti á að við værum að tala um skert lífsgæði að búa við þetta og þá værum við ekki að tala eingöngu um sjónmengun. Það er stanslaus niður frá tengivirkinu og þegar það er raki eða rigning magnast suð frá línunum,“ rifjar Pétur upp umræður af íbúafundinum.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri tók undir með Pétri á íbúafundinum um að frestunin á niðurrifi línanna væri ekki forsvaranleg. „Það eru hins vegar alls konar fyrirvarar sem Landsnet getur notað til að fresta því að taka niður línurnar,“ er haft eftir bæjarstjóranum í fundargerð.

„Er Landsnet algerlega með töglin og hagldirnar?“ spyr Pétur. „Það er eins og ég búi í 500 en ekki 27 þúsund manna samfélagi því sveitarfélagið virðist algerlega bitlaust í málinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×