Fótbolti

Þetta landslið í dag er betra en það var í fyrra

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lars Lagerbäck hræðist ekki Svisslendingana og ætlar sér ekkert annað en sigur í leiknum gegn heimamönnum annað kvöld.
Lars Lagerbäck hræðist ekki Svisslendingana og ætlar sér ekkert annað en sigur í leiknum gegn heimamönnum annað kvöld. fréttablaðið/Valli
Landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck var borubrattur á blaðamannafundi íslenska landsliðsins. Sá sænski var eldhress og opnaði fundinn á léttum brandara sem fór ágætlega ofan í svissneska blaðamenn.

„Svisslendingar hafa verið heppnir hingað til. Nei, ég er bara að grínast,“ sagði Lagerbäck og glotti við tönn. „Við berum mikla virðingu fyrir svissneska liðinu. Það er mjög öflugt og með reyndan þjálfara í Ottmar Hitzfeld. Við efumst ekkert um að við erum að fara í gríðarlega erfiðan leik hérna í Bern.“

Lars hefur mikið talað um hversu ánægður hann væri með fyrri leikinn gegn Sviss þó svo að hann hafi tapast. Hann tekur það jákvæða með sér í þennan leik en fyrri leikurinn sýndi honum að Ísland getur gert Sviss skráveifu.

„Miðað við hvernig við spiluðum áttum við skilið að minnsta kosti eitt stig. Stefnan er að endurtaka leikinn núna og koma þeim á óvart. Við stefnum alltaf á sigur, sama hver andstæðingurinn er. Við mætum samt Sviss af mikilli virðingu en í fótbolta getur allt gerst og við stefnum á sigur.“

Lars ræddi á fundinum í gær að það væri ekki sama breidd í íslenska liðinu og því svissneska. Íslenska liðið mætti mjög illa við því að missa fjóra til fimm lykilmenn. Alfreð Finnbogason tók þátt í æfingu liðsins í gær en ekki hefur verið reiknað með honum hingað til.

„Hann er enn spurningarmerki. Hann getur hlaupið en við getum ekkert sagt nema kvöldið fyrir leik. Það er erfitt að spá í hvað verður. Það er mikið til komið undir Alfreð og lækninum. Það er hægt að sprauta hann svo hann finni ekki til. Það er ekki búið að ákveða hvort við gerum það. Við munu ræða málin,“ sagði Lars en þeir Sölvi Geir Ottesen og Gunnar Heiðar Þorvaldsson gátu ekki tekið þátt í æfingunni og eru tæpir.

„Gunnar er meiddur í lærinu og Sölvi í bakinu. Læknaliðið heldur að þeir geti æft á morgun [í dag].“

Svíinn veit sem er að þó svo að þessi leikur tapist er baráttunni ekki lokið. Það væri þó gríðarlega sterkt fyrir íslenska liðið að ná í eitt stig eða fleiri á morgun.

„Í svona leikjum er gríðarlega mikilvægt að halda einbeitingu allan tímann. Það má aldrei gefa færi á sér. Við þurfum að vera rosalega skipulagðir í þessum leik og verjast sem lið. Þó að við töpum þessum leik eigum við enn möguleika á því að komast í umspil með því að vinna síðustu þrjá leikina okkar. Þar eru tveir heimaleikir þannig að möguleikarnir eru ágætir. Ef allir okkar leikmenn geta tekið þátt þá erum við með sterkt lið sem getur gert fína hluti. Liðið er alltaf að mótast og þetta landslið í dag er betra en það var í fyrra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×