Lífið

Ragnhildur Steinunn: Gylfi býr yfir ótrúlegum aga

Sara McMahon skrifar
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir ásamt knattspyrnumanninum Gylfa Þór Sigurðssyni.
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir ásamt knattspyrnumanninum Gylfa Þór Sigurðssyni. Mynd/Eiríkur Ingi
„Ég reyndi að velja fólk sem er á uppleið í sínu fagi og hafa viðmælendurna ólíka þeim sem rætt var við í fyrri þáttaröðum. Ég hef til dæmis aldrei rætt við knattspyrnumann áður,“ segir fjölmiðlakonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir um viðmælendur sína í þáttaröðinni Ísþjóðin. Fyrsti þáttur þriðja þáttaraðar verður sýndur í Sjónvarpinu annað kvöld.

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, er leikur með Tottenham Hotspurs í ensku úrvalsdeildinni, er fyrsti viðmælandi Ragnhildar Steinunnar. Hún segist hafa notið liðsinnis sambýlismanns síns, Hauks Inga Guðnasonar aðstoðarþjálfara Fylkis, er hún setti saman spurningalista fyrir knattspyrnumanninn. „Haukur settist yfir spurningalistann með mér og kom með ýmsar góðar spurningar sem urðu að fylgja með.“

Hún segir að fróðlegt hafi verið að fylgjast með lífi atvinnumannsins, enda sé þeirra líf allt öðruvísi en flestra. „Þetta snýst allt um að halda skrokknum í lagi og ná árangri á vellinum. Það var mjög gaman að heimsækja Gylfa, hann býr yfir ótrúlegum aga og dugnaði.“

Tökur á þáttunum fóru fram í sumar og ferðuðust Ragnhildur Steinunn og samstarfsmaður hennar víða í þeim tilgangi að ræða við viðmælendur.

„Tökur gengu mjög vel fyrir sig og við ferðuðumst víða bæði hér á landi og erlendis til að hitta viðmælendur."

Ragnhildur Steinunn gengur með sitt annað barn og átti barnið að fæðast í gær. „Ætli barnið komi ekki á meðan fyrsti þáttur er í loftinu. Það væri alveg týpískt,“ segir hún að lokum og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.