Íslenski boltinn

Fara vítaskytturnar á taugum á móti KR?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Rúnar Alex Rúnarsson varð nýjasti vítabaninn í markvarðahópi Vesturbæinga á sunnudaginn þegar hann varði víti frá FH-ingnum Davíð Þór Viðarssyni. Staðan var þá 0-0 en KR vann síðan leikinn 3-1 og steig stórt skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum.

Vítin eru svo sannarlega að hafa sín áhrif í leikjum KR-liðsins. Á sama tíma og KR-ingar eiga bestu vítaskytturnar í boltanum gengur mótherjum þeirra skelfilega að nýta sín víti gegn þeim.

KR-ingar hafa átt mesta vítabanann í Pepsi-deildinni undanfarin fjögur ár (Andre Hansen 2009, Lars Ivar Moldskred 2010 og Hannes Þór Halldórsson 2011 og 2012) og nú er svo komið að mótherjar þeirra hafa aðeins náð að skora úr tveimur af síðustu níu vítaspyrnum sínum í deildinni.

Í báðum vítunum sem mótherjum KR tókst að skora úr stóð í markinu ískaldur varamarkvörður – Fjalar Þorgeirsson á móti ÍBV í Eyjum 2012 og Rúnar Alex á móti ÍBV á KR-vellinum 2013. Þeir voru báðir komnir í markið eftir að Hannes Þór hafði skömmu áður verið rekinn út af með rautt spjald.

Mótherjar Vesturbæinga hafa því frá og með júní 2011 aðeins nýtt 22 prósent víta sinna (9/2) en á sama tíma hafa vítaskyttur KR-ingar aðeins klikkað á einu af sautján vítum sínum. Vítanýting KR-liðsins á þessum tíma er því 94 prósent eða 72 prósentum betri en mótherja þeirra. KR-liðið er enn fremur með 14 vítamörk í plús á þessu tímabili.

Kjartan Henry Finnbogason hefur skorað úr níu af þessum sextán vítum en Bjarni Guðjónsson (3/3) og Óskar Örn Hauksson (2/2) eru líka með 100 prósenta vítanýtingu á þessum tíma. Gary Martin er sá eini sem hefur klúðrað víti frá júní 2011 en hann lét Blikann Ingvar Þór Kale verja frá sér í fyrrasumar.

Síðustu 9 vítaspyrnur mótherja KR7. júní 2011

Hannes Þór Halldórsson ver frá Matthíasi Vilhjálmssyni, FH

29. ágúst 2011

Hannes ver frá Steven Lennon, Fram

15. maí 2012

Hannes ver frá Tryggva Guðmundssyni, ÍBV

16. júní 2012

Viðar Örn Kjartansson, Selfossi, skýtur í stöng á móti Hannesi

21. júlí 2012

Hannes ver frá Halldóri Orri Björnssyni, Stjörnunni

8. ágúst 2012

Þórarinn Ingi Valdimarsson, ÍBV, skorar framhjá Fjalari Þorgeirssyni.

21. júlí 2013

Halldór Orri Björnsson, Stjörnunni, skýtur yfir á móti Hannesi

11. ágúst 2013

Gunnar Már Guðmundsson, ÍBV, skorar framhjá Rúnari Alex Rúnarssyni.

25. ágúst 2013

Rúnar Alex ver frá Davíð Þór Viðarssyni, FH




Fleiri fréttir

Sjá meira


×