Íslenski boltinn

Sem betur fer átti ég einhverja peninga í bankanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Chuck fór illa með Fylkismenn fyrr í sumar þegar Þórsarar unnu 4-1 sigur.
Chuck fór illa með Fylkismenn fyrr í sumar þegar Þórsarar unnu 4-1 sigur. Mynd/Eva Björk Ægisdóttir
„Það liggur í augum uppi að þú getur ekki haft tekjur á Íslandi nema að hafa atvinnuleyfi. Það er bara þannig. Við förum eftir öllum reglum og lögum,“ segir Aðalsteinn Pálsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs.

Chukwudi Chijindu, bandarískur framherji liðsins, missti af viðureign Þórs og KR í 14. umferð Pepsi-deildar karla þann 7. ágúst. Ástæðan var sú að Chuck var hvorki kominn með dvalarleyfi né atvinnuleyfi og þurfti samkvæmt lögum að yfirgefa Ísland á meðan Útlendingastofnun skoðaði umsókn hans. Chuck hélt á heimaslóðir í Kaliforníu í Bandaríkjunum en var mættur aftur fimm dögum síðar og spilaði gegn Víkingi Ólafsvík.

Aðalsteinn segir Þórsara ekki hafa greitt Chuck laun á einn eða annan máta þar til leyfi fékkst. Allt hafi verið uppi á borðinu.

„Stundum þurfa menn að líka sýna sig og sanna áður en þeir heimta laun,“ segir Aðalsteinn. Hann bendir á að bandarískir leikmenn sjái Pepsi-deildina sem stökkpall yfir í stærri deildir í Evrópu.

„Ég get lofað því að Chuck er ekki hjá Þór af því hann þénar svo mikið. Það er ekki ástæðan fyrir því að hann kemur til Íslands. Hann er að spila fótbolta í efstu deild í Evrópu, vill komast til Skandinavíu og enn lengra ef vel gengur.“

Ekki greidd há laun hjá Þór

Joshua Wicks, markvörður Þórs og landi Chucks, hefur spilað með liðinu í allt sumar. Aðalsteinn segir að Wicks hafi ekki þurft að yfirgefa landið enda hafi verið búið að ganga frá allri pappírsvinnu þegar hann kom til Íslands í vetur. Sama gildi um aðra erlenda leikmenn Þórs.

„Ég held að menn hafi ekki áttað sig á því fyrir fram að menn þyrftu að fljúga fram og til baka á meðan pappírar færu í gegnum kerfið. Það er staðreyndin í málinu,“ segir Aðalsteinn. Þórsarar séu búnir að læra af reynslunni en Aðalsteinn minnir á stöðugar breytingar í íþróttahreyfingunni þar sem menn þurfa að læra á kerfið.

„Við sem stöndum í þessu núna erum að minnsta kosti búnir að læra hvernig þetta virkar,“ segir Aðalsteinn. Sex erlendir leikmenn hafa spilað með Akureyrarliðinu í sumar. Aðalsteinn segir launin ekki vera há.

„Þór hefur ekki efni á því að vera með rándýra leikmenn eins og kannski sögurnar segja stundum – ekki frekar en flest önnur íslensk félög. Það er bara þannig.“

Chuck spilaði fyrst með Þór þann 12. maí og er lykilmaður hjá nýliðunum. Í tæpa þrjá mánuði var því knattspyrnumaðurinn Chuck á Akureyri, æfði og spilaði fótbolta án þess að þiggja laun. Hvernig má það vera?

Myndi ekki spila launalaust

„Það má eiginlega segja að ég hafi fengið launin greidd eftir á,“ segir Chuck í samtali við Fréttablaðið. „Ég er náttúrulega atvinnumaður. Ég myndi ekki spila fótbolta erlendis án þess að þiggja fyrir það laun.“

Hann viðurkennir að þótt hann hafi ekki þegið laun á þessu tólf vikna tímabili hafi sér verið séð fyrir húsaskjóli og svo gildi enn. Ekki hafi verið ástæða til að hafa áhyggjur af honum þennan tíma.

„Þeir vildu að sjálfsögðu gera allt samkvæmt lögum,“ segir Chuck, sem hefur skorað sjö mörk í fjórtán leikjum í deildinni í sumar. Chuck segist hafa haft það gott á Akureyri í sumar þrátt fyrir að vera nýkominn á launaskrá hjá Þór.

„Þetta er ekki fyrsti samningurinn sem ég skrifa undir. Sem betur fer á ég einhverja peninga í bankanum,“ segir Chuck, sem missti af viðureign Vals og Þórs á sunnudaginn. Chuck er meiddur á fæti en vonast til að verða klár í slaginn sem allra fyrst.

Chuck var í viðtali við Fréttablaðið á dögunum þar sem hann ræddi meðal annars um sælgætishefð á Íslandi sem hann er til í að innleiða vestanhafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×