Innlent

Byggðastofnun græðir á fyrirhuguðum kvóta

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Hremmingar í rækjuvinnslu frá því um miðjan síðasta áratug eru að valda undarlegum fléttum enn í dag.
Hremmingar í rækjuvinnslu frá því um miðjan síðasta áratug eru að valda undarlegum fléttum enn í dag. Fréttablaðið/Vilhelm
Byggðastofnun hagnast verulega ef Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setur úthafsrækjuveiðar aftur í kvóta eins og hann hefur boðað.

Byggðastofnun á 12,2 prósent af heildaraflamarki í úthafsrækju auk þess að vera með 4,25 prósenta hlutdeild í svokallaðri flæmingjarækju sem veidd er við Nýfundaland.

Stofnunin gekk að þessum heimildum við gjaldþrot fyrirtækja í veiðum og vinnslum á rækju en fjölmörg slík fyrirtæki fóru í þrot um miðjan síðasta áratug. Samtals er 1,3 milljarða lán Byggðastofnunar með veð í slíkum veiðiheimildum.

Þegar Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, gaf veiðar á úthafsrækju frjálsar árið 2010 urðu þessar heimildir verðlausar. Þá var ákveðið að afskrifa eftirstöðvar lánanna sem þær voru veðsettar fyrir.



Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, segir að ef úthafrækja verði aftur sett í kvóta breytist forsendurnar. „Þá má ætla að margumræddar veiðiheimildir í vörslu Byggðastofnunar geti haft umtalsvert verðgildi,“ segir hann. „Og þannig skapað möguleika á að endurheimta að einhverju leiti þau lán sem áður höfðu tapast vegna áfalla í rækjuiðnaðinum. Þó ber að hafa í huga að mjög erfitt er að leggja mat á mögulegt verðmæti þeirra enda hafa veiðiheimildir í úthafsrækju ekki verið söluvara á markaði um margra ára skeið. Þá hefur heldur enginn kvóti verið gefinn út enn.“



Rækjuvinnsla á Íslandi gekk í gegnum miklar hremmingar um miðbik síðasta áratugar. Í ársbyrjun 2005 voru ellefu rækjuverksmiðjur starfandi á landinu en árið 2010 voru þær teljandi á fingrum annarar handar.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×