Íslenski boltinn

Vill ekki leggja þetta aftur á áhorfendur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Elfar Árni tók því rólega heima hjá sér í gær.
Elfar Árni tók því rólega heima hjá sér í gær. fréttablaðið/gva
„Ég man að fyrstu mínúturnar í leiknum voru opnar. Svo man ég að Gulli tók útspark. Eftir það var ég bara farinn og man ekkert næstu klukkutímana. Næst man ég að hafa vaknað upp á bráðadeild með gott fólk í kringum mig. Ég fékk slæman heilahristing og við það kom þessi krampi. Það er það sem gerðist,“ sagði Blikinn Elfar Árni Aðalsteinsson, en hann var fluttur af velli með sjúkrabíl á leik Breiðabliks og KR á sunnudag.

Höfuð Elfars og KR-ingsins Grétars Sigfinns Sigurðarsonar skullu saman og Elfar lá eftir rotaður. Í kjölfarið fóru um hann óhugnanlegir kippir og var áhorfendum brugðið. Ekki síst þegar öskrað var á hjartastuðtæki og byrjað var að beita hjartahnoði á Elfar á vellinum.

Líklega ekki hjartastopp

„Ég held ég hafi ekki lent í neinu hjartastoppi. Ég veit ekki hvort það kom fát á fólkið eða hvort menn fundu ekki púls. Læknirinn var ekki á staðnum en hann reiknaði ekki með því að ég hefði lent í hjartastoppi. Það er mögulegt að ég hafi verið með óreglulegan hjartslátt.“

Elfar hefur ekki séð atvikið en hefur hann áhuga á því? „Það væri fróðlegt að sjá þetta en ég hef ekkert pælt mikið í því enn þá.“

Einhverjir þóttust taka eftir því að Elfar hefði sett upp þumalinn er hann var borinn inn í sjúkrabíl. Hann man ekkert eftir því.

Svo virðist vera sem rétt hafi verið brugðist við á vellinum er hann missti meðvitund og fyrir það er Húsvíkingurinn þakklátur.

„Það var frábært fólk þarna. Mér skilst að bæði mínir menn og KR-ingar hafi veitt aðstoð og það er frábært að heyra. Ég veit ekki hvort ég var í lífshættu en stundum eru höfuðhöggin þannig að menn verða slæmir. Ég held persónulega að ég hafi ekki verið neitt rosalega tæpur.“

Elfar þarf að taka því rólega næstu vikur og svo getur farið að tímabilið sé búið hjá honum.

„Ég vil vera skynsamur og ekki leggja þetta aftur á marga áhorfendur. Ég verð að slaka á núna og sjá svo til hvernig ég braggast."

Enginn læknir á varamannabekknumÞað vakti athygli margra að enginn læknir skyldi vera á bekknum hjá félögunum er Elfar Árni slasaðist. Það er ekkert óeðlilegt við það segir formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks.

„Samkvæmt reglugerð þá þarf sjúkramenntaður einstaklingur að vera á bekknum. Læknir, hjúkrunarfræðingur eða sjúkraþjálfari. Ég veit ekki til annars en að öll lið í deildinni séu með sjúkraþjálfara á bekknum nema í Evrópuleikjum. Þá er skylda að vera með lækni,“ segir Borghildur Sigurðardóttir, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks.

„Ég hef heyrt í mönnum hjá KSÍ og oft þarf að fara í gegnum ferlið og endurmeta. Við munum örugglega gera það í sameiningu núna. Það á að nota svona atvik til góðs ef hægt er að bæta eitthvað í umgjörðinni. Við eigum eftir að skoða þetta hjá okkur. Nú eru allir að jafna sig og við þurfum að hlúa að þeim sem eru í kringum okkur áður en við skoðum næstu skref.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×