Innlent

Markaðssetning og fjölmiðlaumfjöllun á bak við fjölgun ferðamanna

Valur Grettisson skrifar
Ferðamönnum hefur fjölgað mikið yfir vetrarmánuðina.
Ferðamönnum hefur fjölgað mikið yfir vetrarmánuðina. Fréttablaðið/Stefán
„Þessi aukning er mjög mikil,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, en samkvæmt nýrri skýrslu Ferðamálaráðs Evrópu jókst straumur ferðamanna til Íslands mest af öllum löndum í Evrópu.

Skýrslan, sem er önnur ársfjórðungsskýrsla Ferðamálaráðsins, telur saman ferðamannastraum til fjölda landa í Evrópu frá mars til júní. Fjölgunin á Íslandi nam 30 prósentum. Í öðru sæti er svo Slóvakía með 20 prósent. Ferðamannastraumurinn eykst til flestra landa sem rannsóknin tekur til, en tvö lönd skera sig úr; straumurinn minnkar lítillega til Ítalíu, en allverulega til Kýpur.

Erna segir þessa miklu fjölgun ferðamanna mega þakka markaðssetningu og fjölmiðlaumfjöllun. Hún telur að átakið „Ísland allt árið“ hafi skilað mestu. Meðal annars fjölgaði ferðamönnum um 45 prósent í mars síðastliðnum en átakið miðar að því að fá fleiri ferðamenn yfir vetrarmánuðina.

„Svo hefur Ísland verið mikið í umræðunni, meðal annars vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og svo auðvitað út af kreppunni,“ segir

Erna og bætir við að umræðan, þó vond sé, skili sér í aukinni umferð ferðamanna til landsins.

Frá áramótum hefur ferðamönnum fjölgað um fimmtung samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×