Innlent

Spurningamerki sett við það að fara afsíðis með konunum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Jón Gnarr, borgarstjóri, skálar fyrir nýjung í menningarlífi Reykjavíkur ásamt konu sinni, Jóhönnu Jóhannsdóttur, og Guðrúnu Jónsdóttur.
Jón Gnarr, borgarstjóri, skálar fyrir nýjung í menningarlífi Reykjavíkur ásamt konu sinni, Jóhönnu Jóhannsdóttur, og Guðrúnu Jónsdóttur. Myndir/Stefán
„Opnunin gekk vonum framar og hér var bara fullt út úr dyrum,“ sagði Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, í samtali við Vísi. Hún segir þó fólk almennt ekki hafa viljað fara afsíðis með konunum sem það keypti.

Nýr kampavínsklúbbur var opnaður í gær í Reykjavík en klúbburinn er á vegum Stígamóta. Margmenni var í opnunarteitinu en þar var fólki boðið upp á að kaupa tíu mínútna einkaskemmtiatriði fyrir tuttugu þúsund krónur og fá frítt kampavín á meðan á atriðunum stóð.

„Við fundum fyrir gífurlega miklum áhuga og stuðningi við starfið okkar,“ segir Guðrún. „Fólk hafði mikinn áhuga á því að kynnast þessum föngulegu konum sem við vorum að selja aðgang að.“ Hún segir marga hafa viljað styrkja starfið en að fólk hafi velt því fyrir sér af hverju það þurfti að fara afsíðis með konunum. „Fólki þótti það undarlegt. Það var sett spurningamerki við þann lið dagskrárinnar. Það verðum við að skoða í framtíðinni,“ segir Guðrún. En til þess að heyra sögur Stígamóta og fræðast um starfið þá var það nauðsynlegt.

„Það var gaman að taka á móti öllu þessu fólki. Það komu þingmenn, borgarstjórinn og borgarfulltrúar en sérstaklega mikilvægt er að kynna fyrir þessu fólki hvað við erum að gera.“

Ekki er ljóst hver innkoman af atburðinum var.

„Nú þurfum við að setjast niður og fara yfir hvort þetta sé rétta leiðin,“ segir hún aðspurð að því hvort að til standi að opna Kampavínsklúbba Stígamóta á nýjan leik.

Fréttastofa var að sjálfsögðu á staðnum og myndir má sjá í safninu hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×