Innlent

Leikskólabörn komu að kartöflugarðinum ónýtum

Jóhannes Stefánsson skrifar
Kartöflugarðurinn er illa leikinn eftir skemmdarverk. Elín Erna Steinarsdóttir, leikskólastjóri á Bakkaborg, segir börnin hafa orðið fyrir tilfinningatjóni.
Kartöflugarðurinn er illa leikinn eftir skemmdarverk. Elín Erna Steinarsdóttir, leikskólastjóri á Bakkaborg, segir börnin hafa orðið fyrir tilfinningatjóni. Fréttablaðið/GVA
„Það er búið að eyðileggja þetta fyrir börnunum sem ætluðu að fá uppskeru upp úr garðinum. Þarna eru lítil börn sem verða fyrir tilfinningatjóni,“ segir Elín Erna Steinarsdóttir, leikskólastjóri á Bakkaborg.

Aðkoma starfsfólks Bakkaborgar var heldur leiðinleg þegar það mætti til vinnu að nýju eftir sumarfrí í fyrradag því búið var að tæta upp megnið af kartöflugrösum sem börnin á leikskólanum höfðu gróðursett fyrir sumarfrí.

„Börnin komu svo hér í gærmorgun og sáu strax að það var búið að skemma uppskeruna þeirra.“

Elín vonast til þess að málið verði hugvekja fyrir íbúa í hverfinu. „Vonandi leiðir þetta til umræðu innan hverfisins þannig að íbúar hverfisins séu líka vakandi fyrir hverfinu sínu og passi upp á það,“ segir Elín.

Hún vonast til þess að hægt verði að læra af atvikinu.

„Börnin voru að taka myndir af þessu og ræða sín á milli hvað það væri leiðinlegt að það væri búið að skemma fyrir þeim. Það vill enginn láta skemma fyrir sér og þess vegna skemmir maður ekki fyrir öðrum. Það sem skiptir mestu máli er að þetta komi ekki fyrir aftur,“ segir Elín Erna Steinarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×