Íslenski boltinn

Fæ vonandi að spila framar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrés Már Jóhannesson í leik með Fylki í sumar.
Andrés Már Jóhannesson í leik með Fylki í sumar. Fréttablaðið/Stefán
Andrés Már Jóhannesson kvaddi Fylkismenn á sunnudaginn því hann hefur verið kallaður til baka til norska liðsins Haugesund sem lánaði hann fyrr í sumar til Fylkis.

„Ég er ekki par sáttur með að vera fara út núna en það er samt allt í lagi. Það er smá sárabót að það er búið að ganga vel og ég get skilið sáttur og áhyggjulítill við liðið,“ segir Andrés Már en Fylkismenn hafa náð í 12 af 16 stigum sínum í síðustu fjórum leikjum. Andrés hefur skorað í þremur þeirra.

Andrés Már og Ásgeir Börkur Ásgeirsson komu báðir heim og sýndu að Fylkishjartað er á réttum stað.

„Við erum búnir að spila saman síðan að við vorum fimm ára. Það vantaði smá stemmingu og leikgleði í þetta,“ segir Andrés en hvað með næstu skref?

„Þeir kölluðu mig til baka og vilja að ég berjist fyrir sæti mínu í liðinu. Ég hef verið að spila sem hægri bakvörður þarna úti en vonandi fæ ég að fara framar á völlinn,“ sagði Andrés sem fór út í morgun. Fylkir er ekki kominn úr fallbaráttunni en Andrés er rólegur yfir því. „Ég hef engar áhyggjur af Fylkisliðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×