Innlent

Annað banaslys varð á svipuðum slóðum í fyrra

Þorgils Jónsson skrifar
Hér sést hvar banaslysið átti sér stað um síðustu helgi. Í fyrravor átti sér stað annað banaslys á svipuðum slóðum.
Hér sést hvar banaslysið átti sér stað um síðustu helgi. Í fyrravor átti sér stað annað banaslys á svipuðum slóðum.
Rannsókn á tildrögum banaslyssins sem varð tveimur unglingsstúlkum að bana á Suðurlandsvegi á sunnudag stendur yfir að sögn rannsóknardeildar lögreglunnar á Selfossi. Í gær stóð til að yfirheyra þau sem komust lífs af. Þau eru alvarlega slösuð en ekki í lífshættu.

Slysið átti sér stað við góðar aðstæður, á beinum nýlögðum vegakafla rúmum 40 kílómetrum austan við Vík í Mýrdal. Annað banaslys átti sér stað á svipuðum slóðum í apríl í fyrra þar sem erlendur ferðamaður lést.

Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi á rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að slysið í fyrra hafi verið á sömu slóðum, við svipaðar aðstæður, en þó sé enn verið að rannsaka atvik helgarinnar.

„Þetta er mjög keimlíkt. Það er einn bíll á veginum sem fer út af veginum, beinn og góður vegur þarna. Slysið í fyrra varð með þeim hætti að bíllinn fór út í möl í vegarkanti og svo var honum kippt snöggt inn á með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af hinum megin.“

Klæðningin á veginum er ekki tvíbreið en Elís segir ekkert benda til þess að aðstæðum sé beinlínis um að kenna heldur vilji oft til við góðar aðstæður að ökumenn verði of værukærir.

Stúlkurnar sem létust köstuðust út úr bílnum og er talið að þær hafi ekki verið í öryggisbelti, en það sama gildir um ferðamanninn sem lést í fyrra. Elís segir að notkun bílbelta sé lykilatriði í málum sem þessum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×