Íslenski boltinn

Aðeins tvær lengri sigurgöngur í allri bikarsögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Arnþór
Sigur Stjörnumanna á KR-ingum í undanúrslitaleik Borgunarbikarsins á fimmtudagskvöldið batt enda á eina lengstu sigurgönguna í 53 ára sögu bikarkeppninnar. KR-ingar voru nefnilega aðeins tveimur bikarsigrum frá því að jafna met KR-liðsins frá sjöunda áratugnum. KR vann fimmtán fyrstu bikarleiki sína á árunum 1960 til 1965.

KR-ingar urðu bikarmeistarar fyrstu fimm ár bikarkeppninnar en hún var þá leikin á haustin eftir að Íslandsmótinu lauk. KR þurfti þrjá sigra til þess að landa bikarnum í öll skiptin en kynntist fyrsta bikartapinu á móti ÍBA á Melavellinum 19. september 1965.

KR-liðið hafði með sigri í Garðabænum jafnað árangur Valsmanna frá því í byrjun tíunda áratugarins þegar Ingi Björn Albertsson gerði Valsliðið að bikarmeisturum þrjú ár í röð. Valsliðið komst þá í gegnum fjórtán umferðir í röð en í tveimur tilfellum þurfti liðið að spila aukaleiki til þess að tryggja sér bikarinn. Það er lengsta bikarsigurgangan síðan bikarkeppnin var færð inn á tímabilið árið 1973.

KR-ingar hafa verið mikið bikarlið frá árinu 2008 þegar liðið varð bikarmeistari en Vesturbæingar hafa komist í undanúrslitin undanfarin sex tímabil og verið í úrslitaleiknum fjögur af þessum sex árum.

Tapið í Garðabænum á fimmtudaginn var fyrsta bikartap KR utan Laugardalsvallar síðan liðið féll út úr bikarnum á móti Val 2007. Töpin 2009 og 2010 komu bæði í Laugardalnum, í undanúrslitum 2009 (á móti Fram) og í bikarúrslitaleiknum 2010 (á móti FH).

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir lengstu sigurgöngurnar í 53 ára sögu bikarkeppninnar á Íslandi.

Lengstu sigurgöngurnar í sögu bikarkeppninnar KR 1960-1965

15 umferðir í röð

Bikarmeistari 1960

Bikarmeistari 1961

Bikarmeistari 1962

Bikarmeistari 1963

Bikarmeistari 1964

8 liða úrslit 1965

ÍBA endaði sigurgönguna



Valur 1990-92

14 umferðir í röð*

Bikarmeistari 1990

Bikarmeistari 1991

Bikarmeistari 1992

Undanúrslit 1993

Keflavík endaði sigurgönguna

* Vann tvo aukaleiki



KR 2011-13

13 umferðir í röð

Bikarmeistari 2011

Bikarmeistari 2012

Undanúrslit 2013

Stjarnan endaði sigurgönguna



ÍA 1982-84

13 umferðir í röð

Bikarmeistari 1982

Bikarmeistari 1983

Bikarmeistari 1984

8 liða úrslit 1985

Fram endaði sigurgönguna

* Vann einn aukaleik



KR 1994-95

13 umferðir í röð

Bikarmeistari 1994

Bikarmeistari 1995

Undanúrslit 1996

ÍBV endaði sigurgönguna

Fylkir 2001-02

11 umferðir í röð

Valur 1976-1977

11 umferðir í röð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×