Sport

Hættir Sigurður Ragnar með landsliðið?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er óljóst hvort Sigurður haldi áfram.
Það er óljóst hvort Sigurður haldi áfram. fréttablaðið/daníel
Sigurður Ragnar Eyjólfsson gekk á milli leikmanna íslenska kvennalandsliðsins eftir leik og óskaði þeim til hamingju með frábæran árangur. Úrslit gærdagsins voru súr en svekktir leikmenn liðsins geta fyllst stolti yfir að hafa tekið þátt í því skrifa nýjan kafla í sögu íslensks fótbolta.

„Við fengum fyrsta stigið okkar í lokakeppni á þessu móti og náðum líka í fyrsta sigurinn. Við vorum í fyrsta skiptið í átta liða úrslitum og höfum náð að setja ný viðmið fyrir þetta landslið í framtíðinni,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, eftir leikinn.

„Ég sagði við stelpurnar eftir leik að gleyma því ekki að líta á mótið í heild sinni. Þær geta verið stoltar af árangrinum á mótinu og þær hafa staðið sig hrikalega vel. Þó að þær séu súrar og svekktar með að hafa tapað í dag [í gær] þá geta þær farið heim með mikið stolt,“ sagði Sigurður Ragnar.

„Það er stutt í undankeppni HM en minn samningur er í raun búinn. Ég og KSÍ höfum ekki sest niður og rætt framhaldið. Ákvörðunin liggur svolítið hjá þeim hvað þau vilja gera en ég er allavega mjög stoltur af því sem við höfum náð. Það var mikil heiður og forréttindi að fá að vinna með liðinu. Svo verðum við bara að sjá hvað gerist,“ sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×