Innlent

Vilja athugun á starfsmannamálum Kampavínsklúbbanna

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Wozniczka er varaformaður samtaka kvenna af erlendum uppruna.
Wozniczka er varaformaður samtaka kvenna af erlendum uppruna.
Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi kalla eftir því að starfsmannamál á kampavínsklúbbum verði skoðuð sérstaklega af lögreglu. Hættulegt sé að vanmeta starfsemina sem þar fari fram.

Anna Katarzyna Wozniczka er varaformaður samtakanna en hún segir að miðað við fréttaflutning síðustu daga af stöðunum tveimur sé augljóslega ekki allt með felldu.

Hún segir jafnframt að það eigi að tala upphátt um starfsemi sem þessa.

„Okkur finnst þó mikilvægt að bíða með að dæma eða ýta undir fordóma þangað til lögreglan og ábyrgar stofnanir rannsaka málið með aðstoð túlka,“ segir Anna.

Anna segir einnig að kampavínsklúbbar þurfi að vera undir stöðugu eftirliti lögreglu. Mikilvægt sé að skoða reglulega að starfsmenn sem þar vinna séu með kennitölu og skattkort og einnig verður að huga að föstum ráðningarsamningum með starfslýsingu. 

„Starfsmenn eiga að vita um réttindi sín og hvort það sem þeir gera hér á landi samræmist lögum,“ segir hún.

Anna bendir á að konur sem hingað koma frá Austur-Evrópu þurfi ekki sérstakt atvinnuleyfi. Þær megi dvelja og starfa hér á landi í allt að þrjá mánuði. „Það gerir þær mun ósýnilegri. Því er mikilvægt að Ísland vanmeti ekki þetta mál og læri frekar af reynslu nágrannalandanna,“ segir Anna.

„Sérstaklega með tilliti til þess að konurnar sem þarna vinna eru nýkomnar til landsins og búa allar saman í lítilli íbúð. Það verður að ganga úr skugga um að þær séu hér á réttum forsendum,“ segir hún.

Anna segist jafnframt sammála orðum Bjarkar Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, um að starfsemi sem þessi sé varasöm. „Er þetta eitthvað sem við viljum hér?“ segir Anna.

Fyrir helgi stefndu eigendur kampavínsstaðanna VIP Club og Crystal borgarfulltrúanum Björk Vilhelmsdóttur og Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur, forstöðukonu vændisathvarfsins, fyrir ummæli um að það virtist sem vændi og mansal væri stundað í tengslum við staðina.

Konurnar þurfa að biðjast afsökunar á ummælunum og greiða miskabætur í dag, ella verður höfðað meiðyrðamál gegn þeim.

Dansa fyrir karlmenn í bakherberginu

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sögðu tvær breskar starfsstúlkur á kampavínsklúbbnum VIP í Austurstræti að þær ætluðu ekki sitja undir því að vera kallaðar vændiskonur og að orðrómur um að mansal sé stundað í tengslum við staðinn sé ekki sannur.

Konurnar vilja opinbera afsökunarbeiðni frá þeim sem hafa viðhaft slík ummæli og hafa ráðið sér lögfræðing.

„Við vinnum við að skemmta. Við tölum við karlmenn, látum þeim líða þægilega, dönsum fyrir þá og syngjum. Eða bara það sem gerir þá ánægða. Þetta snýst um félagsskap okkar, það er allt og sumt. Félagsskapur, dans, kampavínsglas eða -flaska,“ sögðu konurnar tvær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×