Íslenski boltinn

Ég fékk blóð á tennurnar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hólmbert Aron hefur verið frábær fyrir Framara að undanförnu og gerði þrennu í síðasta leik. Fréttablaðið/valli
Hólmbert Aron hefur verið frábær fyrir Framara að undanförnu og gerði þrennu í síðasta leik. Fréttablaðið/valli
Hólmbert Aron Friðjónsson, leikmaður Fram, hefur verið að finna sig einstaklega vel á tímabilinu og virðist loksins vera að springa út. Leikmaðurinn skoraði þrjú mörk gegn Þór í 7. umferð Pepsi-deildar karla og hefur því verið valinn leikmaður umferðarinnar af Fréttablaðinu.

Hólmbert átti erfitt uppdráttar á síðasta tímabili þrátt fyrir mörg fín tækifæri með Fram en núna virðist leikmaðurinn vera að sýna sitt rétta andlit.

„Þetta hefur verið að ganga vel hjá mér í sumar,“ segir Hólmbert. „Ég fann mig rosalega vel í síðasta leik og það í raun gekk allt upp. Liðið lék allt vel gegn Þór og ég fékk að njóta góðs af því.“

Er stútfullur af sjálfstrausti

„Ég hef alla tíð æft gríðarlega mikið og það breytist ekkert fyrir þetta tímabil. Aftur á móti finn ég fyrir því að ég er með miklu meira sjálfstraust núna en áður og það skiptir sköpum í fótbolta.“

Ríkharður Daðason var ráðinn þjálfari Fram á dögunum, eftir að Þorvaldur Örlygsson sagði starfi sínu lausu hjá félaginu, og virðist hann hafa komið með ákveðna innspýtingu í liðið.

„Það hafði verulega góð áhrif á mig. Menn vilja strax sanna sig fyrir nýjum þjálfara og það fá allir blóð á tennurnar og vilja vera í liðinu. Ríkharður hefur verið viðloðandi Fram í nokkur ár og maður hefur fengið að kynnast honum nokkuð vel. Hann er frábær þjálfari sem á eftir að nýtast mér persónulega vel.“

Stefnir út í atvinnumennsku

„Það er markmiðið hjá flestum knattspyrnumönnum að fara út í atvinnumennsku og það hefur alltaf verið mitt markmið. Ég er aftur á móti nokkuð rólegur í þeim málum og hugsa fyrst og fremst um það að standa mig með Fram, það er númer eitt, tvö og þrjú og þá kannski opnast einhverjar dyr fyrir mér.“

Lið umferðarinnar:

Ögmundur Kristinsson, Fram

Jordan Halsman, Fram

Guðmann Þórisson, FH

Sverrir Ingi Ingason, Breiðablik

Andri Rafn Yeoman, Breiðablik

Rúnar Már Sigurjónsson, Valur

Ólafur Karl Finsen, Stjarnan

Ólafur Páll Snorrason, FH

Atli Sigurjónsson, KR

Hólmbert Aron Friðjónsson, Fram

Óskar Örn Hauksson, KR




Fleiri fréttir

Sjá meira


×