Innlent

Buchheit og Bjarni funduðu í fjármálaráðuneytinu

Stígur Helgason skrifar
Lee Buchheit er sérfræðingur í skuldum þjóðríkja.
Lee Buchheit er sérfræðingur í skuldum þjóðríkja.
Bandaríski samningatæknirinn Lee C. Buchheit átti í síðustu viku fund með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og starfsmönnum fjármálaráðuneytisins um fyrirhugaðar samningaviðræður ríkisins við erlenda kröfuhafa, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Buchheit, sem var aðalsamningamaður Íslands í Icesave-deilunni árið 2010, er lögfræðingur og sérfræðingur í skuldum þjóðríkja.

Fram kom í fréttum í apríl að erlendir kröfuhafar Glitnis og Kaupþings hefðu ráðið Bjørn Richard Johansen, norskan sérfræðing í áfallastjórnun og almannatengslum, til að gæta hagsmuna sinna gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Johansen starfaði fyrir stjórnvöld strax eftir hrun við að samræma aðgerðir.

Þá kom jafnframt fram að stjórnvöld hygðust ráða sérfræðing til að leiða málið fyrir sína hönd og að nafn Buchheits væri þar einkum nefnt.

Fréttablaðið hefur ekki upplýsingar um hver átti frumkvæðið að fundi Buchheits og Bjarna í síðustu viku.

Ljóst er að eftir miklu er að slægjast fyrir þann sérfræðing sem verður falið það verkefni að semja við kröfuhafa um krónueign þeirra, finna hentugustu lausnina á snjóhengjuvandanum og eftir atvikum leiðbeina stjórnvöldum um hvernig best sé að aflétta gjaldeyrishöftum. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er stjórnvöldum kunnugt um áhuga fleiri en Buchheits á verkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×