Íslenski boltinn

Risarnir mætast í Krikanum í kvöld

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Baldur Sigurðsson skoraði tvö mörk í Krikanum í fyrra.
fréttablaðið/stefán
Baldur Sigurðsson skoraði tvö mörk í Krikanum í fyrra. fréttablaðið/stefán

Sjöttu umferð Pepsi-deildar karla lýkur í kvöld með þremur leikjum. Víkingar sækja Blika heim, Keflavík fær Fram í heimsókn en stórleikurinn er í Kaplakrika þar sem Íslandsmeistarar FH taka á móti toppliði KR.

Reyndar eru þessi lið jöfn að stigum í fyrsta og öðru sæti deildarinnar en markamunurinn er betri hjá KR-ingum.

KR hefur ekki alltaf gengið vel á FH-velli en vann þó sterkan 1-3 sigur þar í fyrra. Sá leikur kom KR aftur inn í Íslandsmótið en í stað þess að fylgja sigrinum eftir lögðu KR-ingar niður vopnin og gerðu hreinlega ekki meira það sumarið.

KR vann einnig leik liðanna árið 2009 en það eru einu tveir sigrar KR-inga í Kaplakrikanum á þessari öld. FH hafði þar öll völd gegn KR en Vesturbæingar hafa aðeins verið að hressast.

Víkingar eru eitt tveggja liða sem hafa ekki enn unnið leik í deildinni í sumar. Blikarnir aftur á móti verið mjög brokkgengir. Aðeins einu stigi munar á Keflavík og Fram.

Fram er með fimm stig en Keflavík með fjögur. Þetta verður fyrsti leikur Framara undir stjórn Ríkharðs Daðasonar sem tók við þjálfarastarfinu af Þorvaldi Örlygssyni á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×