Innlent

Vanskil kostuðu SVFR leigu Norðurár

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Stjórnarmenn í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur hófu veiðar í Norðurá í gær en létu sér nægja fyrsta veiðidaginn í stað þess að vera tvo og hálfan dag eins og tíðkast hefur.
Stjórnarmenn í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur hófu veiðar í Norðurá í gær en létu sér nægja fyrsta veiðidaginn í stað þess að vera tvo og hálfan dag eins og tíðkast hefur. Fréttablaðið/GVA

Stjórn Veiðifélags Norðurár íhugaði að kaupa opnunarhollið af Stangaveiðifélagi Reykjavíkur svo stjórn SVFR gæti opnað Norðurá þrátt fyrir vanskil við landeigendur. Fyrir óstaðfestan trúnaðarbrest átti að útiloka fulltrúa Lífsvals frá félagsfund

Veiðifélag Norðurár ræddi að kaupa opnunarhollið í ánni og gefa það stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur, sem opnað hefur ána síðustu 67 árin en er nú í vanskilum við veiðifélagið.

Stjórn SVFR ætlaði að selja frá sér opnunarhollið í ljósi bágrar fjárhagsstöðu félagsins. Engin viðunandi tilboð bárust að sögn stjórnarinnar, sem opnaði því ána á fyrstu tveimur vöktunum í gær. Næstu dagar ruku hins vegar á 40 þúsund krónur dagurinn þegar þeir voru settir í vefsölu SVFR í gær.

Þótt ekki hafi náðst áframhaldandi samningar milli Veiðifélags Norðurár og SVFR um leigu árinnar vildi stjórn veiðifélagsins að haldið yrði í þá hefð að stjórnarmenn SVFR opnuðu ána.

Birna G. Konráðsdóttir

Birna G. Konráðsdóttir, formaður veiðifélagsins, stakk því upp á félagsfundi um miðjan maí að félagið keypti opnunarhollið af SVFR til að bjóða stjórnarmönnum þess til veiða. Fram kom það sjónarmið á félagsfundinum að slíkt gæti verið góð auglýsing fyrir Norðurá en einnig að þetta gæti verið niðurlægjandi fyrir SVFR. Einn benti á að útlit væri fyrir að veiðifélagið fengi hvort eð er ekki peninga frá SVFR og gæti því allt eins keypt opnunina. Ekkert varð úr málinu.

Helsta fundarefnið var einmitt uppnámið í útleigu árinnar. Um miðjan maí námu vanskil SVFR við veiðifélagið um 25 milljónum króna. Nefnt var á fundinum að vanefndir SVFR gagnvart veiðifélaginu væru ástæða fyrir því að útleiga árinnar væri ófrágengin. Sumir fundarmanna lýstu áhyggjum af því að greiðslur sem þeir treystu á myndu ekki skila sér. Tillaga kom um að semja áfram við SVFR en ekki voru greidd atkvæði um hana því meirihlutinn samþykkti að fela Einari Sigfússyni, sem verið hefur með Haffjarðará, að selja leyfi í ána næsta sumar í umboðssölu.

Birna formaður las á félagsfundinum yfirlýsingu stjórnar varðandi neyðarlegt mál sem útspilaði sig eftir næsta fund þar á undan. Sagði í yfirlýsingunni að talið hafi verið að Þórir Örn Þórisson, fulltrúi Lífsvals ehf., á félagsfundinum hefði lekið upplýsingum þaðan í formann SVFR. Birna hafi því verið "gerð út af örkinni" til óska eftir að fulltrúi Lífsvals mætti ekki á næsta fund. Þórir hafi hins vegar verið hafður fyrir rangri sök og bað stjórnin hann innilega afsökunar á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×