Íslenski boltinn

Klár í slaginn gegn Fylki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
David James í marki ÍBV gegn FH.
David James í marki ÍBV gegn FH. Fréttablaðið/Daníel

Búist er við því að David James verji mark ÍBV sem tekur á móti Fylki í 6. umferð Pepsi-deildar karla á morgun. Leiknum var flýtt vegna landsliðsverkefna Tonny Mawejje með Úganda en aðrir leikir í 6. umferð fara fram 9. og 10. júní.

James missti af síðustu tveimur leikjum ÍBV, gegn Víkingi Ólafsvík og Þrótti, en töluverð óvissa hefur ríkt um það hvers vegna James var fjarverandi í leikjunum.

„Hann var að klára A-þjálfaranámskeið sitt hjá UEFA,“ segir Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV. Óskar staðfesti að James hefði komið til landsins í gær og reiknaði með því að hann væri klár í slaginn gegn Fylki.

„Það var einhver vökvi inni á hnénu hjá honum sem var tekinn á meðan hann var ytra,“ sagði Óskar. Eyjamenn séu þó vanir því að vera með hörkutól í markinu og minnir á Albert Sævarsson.

„Albert fór eitt sinn í speglun en spilaði strax daginn eftir,“ segir Óskar en minnir á að Albert sé læknisfræðilegt undur. Hann hafi einnig fengið gat á lunga en verið mættur í markið skömmu síðar.

Óskar Örn segir hins vegar að koma verði í ljós hvort James takist að slá út Guðjón Orra Sigurjónsson í marki ÍBV. Guðjón Orri fékk aðeins á sig eitt mark í leikjunum tveimur sem hann leysti James af í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×