Íslenski boltinn

Elfar Freyr gæti spilað með Blikum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elfar Freyr varð Íslandsmeistari með Blikum sumarið 2010.
Elfar Freyr varð Íslandsmeistari með Blikum sumarið 2010. Mynd/Valli

Miðvörðurinn Elfar Freyr Helgason æfir þessa dagana með Breiðabliki. Hann er samningsbundinn Randers í Danmörku til 1. júlí en gæti eftir það spilað með Blikum.

„Þeir hafa spurt mig út í hvort ég sé tilbúinn að koma aftur. Ég íhuga það en gef mér góðan tíma," segir Elfar Freyr í viðtali á stuðningsmannasíðu Breiðabliks.

Elfar Freyr segist óviss um framtíðina. Hann sé búinn að skrá sig í fjarnám í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík í haust en hann viti ekki hvar hann muni spila.

Miðvörðurinn segist enn ekki hafa fengið greidd öll laun sín síðan hann var á mála hjá AEK í Grikklandi.

„Það er í málaferlum hjá FIFA. Ég skipti mér lítið af því," segir Elfar Freyr. Í viðtalinu var rifjuð upp skemmtileg saga frá því hann lék með Blikum á sínum tíma. Þá mætti Elfar Freyr með jólaseríu í bónuspoka á æfingu.

„Ég var vanur að mæta með Bónus- eða Hagkaupspoka á æfingar. Svo tók ég einu sinni vitlausan poka. Tók jólaseríurnar hans pabba með. Þær voru vel vafðar saman en ekki úti um allt í pokanum. Það var nú meiri vitleysan," segir Elfar Freyr léttur.

Hann segist hafa fengið sekt frá þáverandi samherja sínum, Kára Ársælssyni, enda þurfti Elfar að bruna heim og ná í skóna sína. Fyrir vikið varð hann seinn á æfingu sem var brot á reglum sektarsjóðs Blika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×