Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir : Valur - Þór 2-2 | Tíu Valsmenn héldu út

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Myndir / Daníel Rúnarsson
Valur og Þór gerðu 2-2 jafntefli á Vodafone vellinum í kvöld. Þór var 1-0 yfir eftir bragdaufan fyrri hálfleik en mikið fjör var í þeim seinni en Valsmenn voru einum færri í tæpan hálftíma.

Valsmenn byrjuðu leikinn betur en Þór náði að vinna sig inn í leikinn er leið á hálfleikinn og voru mun sterkari seinni hluta fyrri hálfleiks og komust verðskuldað yfir þegar Mark Tubæk skoraði á 37. mínútu eftir laglegan samleik í teig Vals.

Valsmenn komu mjög ákveðnir út í seinni hálfleik og jafnaði Matarr Jobe metin strax á 49. mínútu. Þór tók miðju, lék upp vinstri vænginn og Jóhann Helgi Hannesson skallaði boltann í netið þó skallinn hafi verið svo gott sem beint á Fjalar Þorgeirsson markvörð Vals.

Fjörið var ekki búið því átta mínútum síðar jafnaði Valur metin á nýjan leik. Patrick Pedersen skoraði þá eftir glæsilegan samleik í teig Þórs.

Mínútu síðar fékk Daniel Craig Racchi gula spjaldið og tveimur mínútum síðar fékk hann annað gult spjald og Valsmenn því einum færri í tæpan hálftíma.

Valsmenn náðu að loka vel á Þór einum færri en samt sem áður þurfti Fjalar að verja í tvígang og bjargaði þar stigi fyrir Val.

Þetta var þriðja jafntefli Þórs í röð en liðið er þremur stigum frá fallsæti í þéttum pakka í botnbaráttunni.

Valur er með 25 stig í 5. sæti, með öruggt sæti í deildinni og búið að missa af toppbaráttunni.

Magnús: Svona hefur ekki gerst í yngri flokkum
„Við ætluðum okkur sigur hér á heimavelli og erum gríðarlega svekktir með þetta,“ sagði Magnús Gylfason þjálfari Vals.

„Fyrri hálfleikur var jafn. Við byrjuðum leikinn ágætlega en duttum svo niður og þeir komast inn í leikinn og komast yfir. Við rifum okkur upp af rassgatinu í seinni hálfleik og náðum að jafna.

„Það gerist eitthvað ótrúlegt sem ég fatta ekki. Þeir spila boltanum inn í okkar eigið mark án þess að við snertum hann aftur. Það hefur aldrei gerst, ekki einu sinni í yngri flokkum þegar ég hef þjálfað. Þetta óskiljanlegt mark að mínu viti en svona gerast hlutirnir. Við héldum áfram og spiluðum seinni hálfleikinn ágætlega en þetta er ekki í þeim gæðaflokki sem ég ætlast til að Valsliðið sé.

„Ég var gríðarlega svekktur með að fá rautt spjald. Menn eiga að geta spilað með gult á bakinu. Hann er óheppinn þegar hann fær seinna gula spjaldið. Leikmaður Þórs rekur hælana í hann en hann var allt of nálægt honum. Hann var æstur á þessum tíma og hefði átt að róa sig en hann var ekki að sparka einhvern niður eða hlaupa á eftir mönnum eða stökkva með tvær fætur á undan sér. Hann fékk bara einhver tvö gul spjöld og við verðum að sætta okkur við það,“ sagði Magnús sem gat ekki notað Hauk Pál Sigurðsson vegna meiðsla í dag. Annar miðjumaður Iain James Williamson fór meiddur af leikvelli undir lok fyrri hálfleiks.

„Þetta er staðan sem við höfum verið í í sumar, að ströggla með miðjumenn. Þeir eru seldir og meiddir. Þeir fá spjöld, gul og rauð og allan pakkann. Við verðum að skoða það fyrir næsta leik, það er stutt í  næsta leik sem betur fer. Það er gott að það sé stutt í næsta leik þegar maður er svekktur og lítill tími til að velta hlutunum of mikið fyrir sér.

„Williamson verður ekki með gegn KR en við getum vonandi tjaslað Hauki Páli saman,“ sagði Magnús.

Páll: Fórum aftur til fortíðar og börðumst
„Ég er búinn að telja upp að tíu og þetta er klárlega eitt stig unnið fyrir okkur,“ sagði Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs.

„Leikurinn gat dottið okkar megin, það er ekki spurning. Við vorum ekki alveg nógu graðir en hann bjargaði þeim á loka mínútunum. Að sama skapi hleyptum við þeim í aksjón í hinum teignum. Fyrirfram hefði ég tekið stigið miðað við söguna, okkur hefur gengið erfiðlega með Val,“ sagði Páll en Þór hefur ekki unnið Val í deildarkeppni síðan í júní 1994.

„Það sem ég tek út úr þessu er að Þórsliðið barðist hver fyrir annan hér í kvöld. Menn gerðu það sem fyrir var lagt en við erum ennþá að glíma við einstaklings mistök sem eru að kosta okkur mikið. Heilt yfir er ég sáttur við leik okkar í kvöld og það hefði ekki þurft miklu að muna til að við næðum þremur stigum.

„Við náðum að klára, tvær, þrjár sóknir sem markmaðurinn varði mjög vel. Það stóð tæpt en við fengum líka á okkur færi einum fleiri og erum kannski ekki nógu graðir fram á við en auðvitað verðum við að virða stigið sem við erum með og vera ekki of æstir fram á við.

„Við erum í harðri baráttu og nú erum við í þeim kafla þar sem við mætum þessum liðum sem við reyttum stig af í fyrri umferðinni. Liðin sem eru í kringum okkur eins og Víkingur Ólafsvík og Fylkir. Við erum með fjögur stig á móti þessum liðum og eigum eftir að mæta þeim fleirum. Þetta eru stóru stigin þó við teljum okkur eiga efni á að stríða honum liðunum líka. Það er ekki svo að við séum að fara í þá með hangandi haus. Það sást í kvöld að okkur langaði mikið til að fá þrjú stig en það tókst ekki.

Ég er ánægður að við fórum aftur til fortíðar og börðumst á kostnað kannski knattspyrnunnar og við fengum stig. Við það er ég sáttur,“ sagði Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×