Fótbolti

Ferguson elskaði Carragher

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Sir Alex Ferguson, fráfarandi knattspyrnustjóri Manchester United, hafði ekkert nema gott að segja um Jamie Carragher, varnarmann Liverpool, sem leggur skóna á hilluna frægu um helgina.

Carragher er að klára sitt sautjánda tímabil hjá Liverpool en þessi 35 ára kappi hefur spilað með liðinu alla sína tíð - alls 737 leiki.

„Hann er svo sannarlega leikmaður sem ég dáist að,“ sagði Ferguson í viðtali sem birtist á heimasíðu Liverpool.

„Hann er fullkomið dæmi um tryggan leikmann sem Liverpool hefur fengið að njóta í meira en áratug. Hann hefur verið sem klettur í vörn liðsins undanfarin ár.“

„Ég elskaði hann. Hann er frábær fyrirmynd fyrir unga leikmenn sem vilja ná langt í knattspyrnunni. Hann hefur verið virkilega góður fagmaður.“

„Hann er einmitt sú týpa af leikmanni sem allir stjórar vilja hafa í sínu liði. Ég lofaði Steve Bruce í hástert á sínum tíma og ég held að Jamie Carragher falli í sama flokk - getur spilað þrátt fyrir meiðsli og stendur ávallt aftur upp, sama hvað gengur á. Hann er leikmaður sem missir varla af leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×