Enski boltinn

Joe Allen telur að Liverpool geti barist um titilinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Joe Allen og Jordan Henderson fagna marki með Luis Suarez
Joe Allen og Jordan Henderson fagna marki með Luis Suarez Mynd/Gettyimages
Joe Allen telur að Liverpool geti barist um titilinn á þessu tímabili. Liverpool situr í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir sautján leiki fyrir leiki morgundagsins.

Dagskráin er ekki auðveld fyrir Liverpool í þessari viku, aðeins þremur dögum eftir leik gegn Manchester City á Etihad er leikur gegn Chelsea á Stamford Bridge. Allen telur að leikirnir sem eru framundan séu gott próf hvort liðið sé tilbúið að berjast um titilinn.

„Að vera efstir á jólunum er frábær árangur en við reynum að gera ekki of mikið úr því. Næstu tveir leikir eru stórleikir, við sjáum til hver staðan verður eftir þá,"

„Þetta verður erfitt verkefni en við erum á góðu skriði, miðað við hvernig við höfum verið að spila eigum við möguleika að ná stigum hvar sem er. Bæði liðin eru gríðarlega sterk á heimavelli en það verður alltaf einhver að stöðva það. Við verðum að vera metnaðarfullir og reyna vera liðið til þess að gera það,"

Allen gat nú varla talað við fjölmiðla án þess að hrósa Luis Suarez, sóknarmanni Liverpool. Suarez er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að hafa misst af fimm leikjum í upphafi tímabils.

„Hann er að spila í hæsta gæðaflokki í hverri viku, skorandi mörk og skapandi fyrir okkur hina. Þetta er til marks um heimsklassaleikmann sem hann er svo sannarlega,"

Suarez skrifaði undir nýjan samning við Liverpool í síðustu viku og fylgdi því með tveimur mörkum og stoðsendingu í öruggum sigri á Cardiff.

„Að hann hafi skrifað undir nýjan samning gefur okkur öllum aukið sjálfstraust, þetta dregur vonandi að klúbbnum fleiri heimsklassaleikmenn. Að Suarez hafi skrifað svona fljótlega undir sýnir að hann hefur trú á verkefninu hérna, allir leikmennirnir eru metnaðarfullir í að ná árangri. Það er engin ástæða afhverju við ættum ekki að geta barist á toppi deildarinnar," sagði Allen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×