Fótbolti

Ólína kemur inn fyrir Hólmfríði - Dóra María líklega á vinstri kantinn

Óskar Ófeigur Jónsson í Halmstad skrifar
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir.
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir. Mynd/Daníel
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, gerir eina breytingu á byrjunarliði sínu fyrir leikinn á móti Svíþjóð í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar sem fer fram í Halmstad í dag.

Hólmfríður Magnúsdóttir tekur út leikbann í þessum leik og ákvað Sigurður Ragnar Eyjólfsson að taka Ólínu Guðbjörgu Viðarsdóttur inn í liðið í hennar stað.

Þetta er fyrsti leikur Ólínu í byrjunarliðinu á þessu móti. Hún fer í hægri bakvörðinn og mun Dóra María Lárusdóttir líklega færa sig framar og taka stöðu Hólmfríðar á vinstri vængnum. Það er samskonar uppstilling í þessum stöðum og í vináttulandsleik á móti Svíum í apríl.

Sif Atladóttir er áfram við hlið Katrínar Jónsdóttur í miðri vörninni en Sif átti frábæran leik á móti Hollandi í lokaleik liðsins í riðlinum.



Byrjunarlið Íslands á móti Svíþjóð:

Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Hægri bakvörður: Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir

Miðverðir: Sif Atladóttir og Katrín Jónsdóttir.

Vinstri bakvörður: Hallbera Guðný Gísladóttir.

Miðjumenn: Sara Björk Gunnarsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir.

Hægri kantur: Fanndís Friðriksdóttir.

Vinstri kantur: Dóra María Lárusdóttir

Framherjar: Margrét Lára Viðarsdóttir og Rakel Hönnudóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×