Enski boltinn

City valtaði yfir Newcastle | Southampton vann Chelsea

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sex leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en Manchester City gjörsamlega gekk frá Newcastle 4-0 á heimavelli. Carlos Tevez skoraði fyrsta mark leiksins á 41. mínútu leiksins en aðeins fjórum mínútum síðar var staðan orðin 2-0 þegar David Silva gerði annað mark City í leiknum.

Þegar um tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum kom Vincent Kompany heimamönnum í 3-0. Það var síðan Yaya Touré sem innsiglaði frábæran sigur heimamenna tuttugu mínútum fyrir leikslok. Manchester City náði því að minnka forskot United niður í 15 stig á ný en fyrr í dag vann Manchester United Sunderland 1-0.

Leikmenn Tottenham fóru í heimsókn til Swansea og byrjuðu leikinn frábærlega með marki frá Jan Vertonghen eftir rúmlega tíu mínútna leik en hann fékk frábæra stungusendingu frá Gareth Bale inn fyrir vörn Swansea og afgreiddi boltann eins og framherji í netið. Stuttu síðar fékk Emmanuel Adebayor algjört dauðafæri einn gegn markverði Swansea en honum varð heldur betur á og skaut boltanum beint í hendurnar á Michel Vorm í marki heimamanna.

Það leit allt út fyrir að gestirnir frá London væru að fara ganga frá Swansea. Gareth Bale hamraði síðan boltanum í netið fyrir utan vítateig Swansea og kom Tottenham í 2-0 á 21. mínútu leiksins. Staðan var 2-0 í hálfleik en í þeim síðari kom allt annað Swansea lið til leiks og byrjuðu strax að setja mark sitt á leikinn.

Michu náði að minnka muninn þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum þegar hann skallaði boltann í netið. Lengra komust leikmenn Swansea ekki og Tottenham vann frábæran sigur. Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliðið Tottenham í dag en var tekinn af velli á fimmtán mínútum fyrir leikslok.

Arsenal tók á móti Reading á Emirates-vellinum í London en heimamenn byrjuðu leikinn betur með marki frá Gervinho en hann fékk fína stoðsendingu frá Santi Cazorla í aðdraganda marksins. Staðan var 1-0 fyrir Arsenal í hálfleik en í þeim síðari var aðeins eitt lið inná vellinum.

Þegar þrjár mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum skoraði Santi Cazorla mark eftir undirbúning frá Gervinho, þessir tveir náðu vel saman í dag. Á 67. mínútu leiksins skoraði síðan Frakkinn Olivier Giroud fyrir Arsenal og staðan orðin 3-0. Hal Robson-Kanu náði að minnka muninn fyrir Reading tuttugu mínútum fyrir leikslok en leikmenn Arsenal voru ekki lengi að svara því.

Mikel Arteta skoraði mark úr vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar og staðan orðin 4-1 og þannig lauk leiknum. Southampton tók á móti Chelsea og gerðu sér lítið fyrir og unnu þá bláklæddu 2-1. Jay Rodriguez kom heimamönnum yfir á 23. mínútu leiksins en John Terry, fyrirliðið Chelsea, náði að jafna metin fyrir gestina á 33. mínútu. Aðeins tveim mínútum síðar komust heimamenn yfir á ný þegar Rickie Lambert skoraði annað mark Southampton. Frábær sigur heimamanna en lið Chelsea tapaði dýrmætum stigum.

West Ham vann fínan sigur á WBA 3-1. Fyrsta mark leiksins gerði Andy Carrol eftir rúmlega fimmtán mínútna leik. Það var síðan Gary O'Neil sem gerði annað mark West Ham í leiknum eftir tæplega hálftíma leik. Staðan var því 2-0 í hálfleik. Andy Carrol gerði annað mark sitt í leiknum tíu mínútum fyrir leikslok.

Gestirnir frá WBA náðu að klóra í bakkann tveim mínútum fyrir leikslok þegar Graham Dorrans skoraði úr vítaspyrnu.

Þá vann Wigan sigur á Norwich 1-0 en sigurmarkið kom tíu mínútum fyrir leikslok þegar Arouna Koné tryggi Wigan sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×