Innlent

"Ísland besti kosturinn fyrir Króatíu“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
„Ísland er besti kosturinn fyrir Króatíu.“ Þetta segir Króati búsettur á Íslandi. Hann á von á því að fá fjölmarga landa sína í heimsókn þegar landslið Króatíu mætir Laugardalsvöll í næsta mánuði.

Við litum í heimsókn í Álfheima í Reykjavík í dag þar sem Króatainn Hrvoije Kralj býr ásamt fjölskyldu sinni. Mikil ánægja ríkir í Króatíu með að fá Ísland sem mótherja í umspilinu um laust sæti á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu á næsta ári. Óskamótherji segja Króatar en hvernig er stemmningin hjá Króötum búsettum á Íslandi?

„Þetta er mjög gaman, skemmtilegt að fá Ísland. Við vonum að það verði sama niðurstaða og þegar við mættumst síðast. Ísland var besti kosturinn fyrir okkur og Króatía versti kosturinn fyrir Ísland,“ segir Hrvoje Kralj. „Ég hefði frekar viljað fá annan andstæðing en Ísland því ég vildi sjá bæði liðin áfram. Svona er lífið,“ bætir Tomislav Magdich við.

Þó Króatía sé sigurstranglegra þá eru okkar menn ekkert of sigurvissir. „Ísland er miklu sterkara en þegar við mættum þeim árið 2005 og með mjög góðan þjálfara,“ segir Tomislav.

Síminn hringir stanslaust

Það er búið að vera nóg að gera hjá Hrvoije við að svara símanum í dag. Fjölmargir landar hans eru búnir að hafa samband og athugað hvort það sé möguleiki á gistingu.

„Síminn er búinn að hringja stanslaust og margir sem eru búnir að senda skilaboð um að koma hingað, fá gistinu og miða. Það verður góð stemmning og gaman að þetta sé á föstudegi. Það verður örugglega fullt hús af Króötum. Ég verð með tjald úti í garði og stemmningin örugglega góð,“ segir Hrvoije.

Um 150 Króatar búa á Íslandi og þeim gæti fjölgað á næstu árum enda gekk Króatía nýverið inn í Evrópusambandið. Hvernig er að búa á Íslandi? „Það er frábært að búa á Íslandi. Síðasta sumar var alveg frábært. Það er mjög gott að ala hér upp börn,“ segir Hrvoije Kralj.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×