Innlent

Stjórnarandstaðan með meirihlutafylgi og Framsókn hrapar

Heimir Már Pétursson skrifar
Framsóknarflokkurinn hefur tapað miklu fylgi frá kosningum og Samfylkingin mælist nú aftur annar stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi, samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar.

Samkvæmt könnun Félagvísindastofnunar sem gerð var dagana 3. til 16. október mælist Sjálfstæðisflokkurinn nú með 23,2% fylgi, Samfylkingin 19,7%, Framsóknarflokkurinn 14,8%, Vinstrihreyfingin - Grænt framboð með 14,5%, Björt Framtíð með 12,4% og Píratar með 8,5%. Samanlagt fylgi við stjórnarflokkana er því komið niður í 38% .

Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 3,5% minna fylgi en í alþingiskosningunum í vor en Framsóknarflokkurinn tapar enn meira fylgi eða um 10% prósentum frá kosningum. Fylgi Samfylkingarinnar hefur verið í sögulegu lágmarki undanfarin misseri og missti flokkurinn mikið fylgi í kosningunum í vor. Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar bætir flokkurinn verulega við sig fylgi og mælist nú með 20 prósent og er aftur orðinn næst-stærsti flokkur landsins.

Vinstrihreyfingin - Grænt framboð mælist nánast jafnstór og Framsóknarflokkurinn og Björt Framtíð og Píratar bæta báðir við sig um 3-4 prósentustigum. Minnihlutinn á þingi mælist því með um 55% fylgi samanlagt, en stjórnarflokkarnir með 38 prósent eins og áður sagði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×