Innlent

Leigusalar láta skrúfa fyrir hita og rafmagn

Valur Grettisson skrifar
Leigusalar eru farnir að óska eftir því að hiti og rafmagn verði tekið af leiguhúsnæðum til þess að losna fyrr við óskilvísa leigjendur.
Leigusalar eru farnir að óska eftir því að hiti og rafmagn verði tekið af leiguhúsnæðum til þess að losna fyrr við óskilvísa leigjendur. Fréttablaðið/Vilhelm
Leigusalar hafa ítrekað farið fram á það við Orkuveitu Reykjavíkur að lokað verði á rafmagn og hita í íbúðum þar sem leigjendur hafa ekki greitt leigu í langan tíma og illa gengur að ná þeim út úr íbúðunum.

„Svona mál dúkka reglulega upp,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar. Raunar eru fyrirspurnir vegna þessa orðnar svo algengar að Orkuveitan hefur komið sér upp verklagi til þess að bregðast við slíkum beiðnum.

Eiríkur Hjálmarsson, Upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segir fyrirtækið hafa mótað sérstakar verklagsreglur til þess að taka á móti óskum leigusala.
Hann segir rafmagn og hita aldrei tekið af húsnæði ef leigjandi er með gildan leigusamning. Sé samningur ekki í gildi hafi eigandi umráðarétt yfir húsnæðinu og geti látið loka. Það hafi gerst alloft. 

Sigurður Helgi Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins, segist aldrei hafa heyrt af þessu úrræði. „En það er ljóst að það er mikil spenna á leigumarkaði,“ segir hann. Sigurður Helgi telur þetta örþrifaráð leigusala skýrast af því að ákveðinn flöskuháls sé hjá dómstólum þegar riftunarmál eru til meðferðar.

Sigurður Helgi Guðjónsson, Framkvæmdastjóri húseigendafélagsins, segir mikla spennu á leigumarkaði þessa stundina. Fréttablaðið/GVA
„Það tekur að minnsta kosti tvo til þrjá mánuði að rifta einföldustu samningum fyrir dómi, en sá tími lengist oft og verður hálft ár,“ segir Sigurður Helgi, en þetta gerir það að verkum að leigusalar verða fyrir miklu fjárhagstjóni. 

Spurður út í úrræðið sem leigusalar nýta sér með reglulegum hætti hjá Orkuveitunni svarar Sigurður Helgi: „Það má ekki taka rafmagn og hita af íbúðum leigjenda. Eins má ekki nýta sér aðrar skilvirkari leiðir eins og að hleypa músum inn í íbúðina, eða hóta fólki.“ 

Hann telur að ólöglegt sé að loka fyrir rafmagn nema dómsúrskurður liggi fyrir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×