Fótbolti

Dómari í dái eftir hnefahögg leikmanns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Farsæll knattspyrnudómari í Utah berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Utah í Bandaríkjunum eftir að hafa orðið fyrir árás frá 17 ára knattspyrnumanni í leik um síðustu helgi.

Ricardo Portillo er 46 ára gamall knattspyrnudómari en hann er í dái eftir að hafa fengið hnefahögg frá 17 ára leikmanni í kjölfar þess að dómarinn gaf viðkomandi leikmanni gula spjaldið.

Portillo var algjörlega óviðbúinn högginu og var að færa spjaldið til bókar þegar leikmaðurinn sló hann. Dómarinn virtist í fínu lagi til að byrja með en fór síðan að kvarta undan svima. Þegar hann fór að æla blóði var hinsvegar hringt á sjúkrabíl.

Táningurinn hefur verið settur varðhald á unglingaheimili og verður væntanlega ákærður fyrir grófa líkamsárás. Deyi Portillo má aftur á móti búast við mun harðari refsingu.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Ricardo Portillo hefur orðið fyrir árás á knattspyrnuvellinum því elsta dóttir hans greindi frá því að faðir sinn hafi einnig rifbeinsbrotnað og fótbrotnað eftir viðskipti við óánægða knattspyrnumenn.

Fjölskylda Ricardo Portillo hefur ekkert heyrt í leikmanninum eða fjölskyldum hans. Dómarinn og árásamaðurinn þekktust heldur ekki neitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×