Innlent

Óvanalegt ástand á Kili

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þrumu og eldingar nærri Reykjanesbæ. Myndin er úr safni.
Þrumu og eldingar nærri Reykjanesbæ. Myndin er úr safni. MYND / HILMAR BRAGI
Mikið eldingaveður hefur verið á Kili í dag og í gær.

Gerður Beta Jóhannsdóttir, björgunarsveitamaður, var nýkomin af hálendisvaktinni þegar fréttastofa náði af henni tali.

„Það er búið að vera mikið um þrumur og eldingar. Þetta er óvanalegt ástand. Því á Kili er um og yfir 20 stiga hiti, og inn á milli virðast koma hitaskúrir með þrumum og eldingum,“ segir Gerður.

„Við vorum í Gíslaskála og þar kom til okkar hestahópur sem lenti í vandræðum. Þetta voru einhverjir 40 hestar í stóði sem fældust út af þrumunum en við náðum tökum á því fljótlega,“ bætir Gerður við og vissi ekki til þess að fleiri atvik hefðu komið upp vegna veðursins.

„Það er alveg magnað að sjá þetta - ég hef aldrei áður orðið vitni af svona veðurfari á Íslandi,“ segir Gerður.

Almannavarnir birtu eftirfarandi tilkynningu á Facebook síðu sinni í dag af þessu tilefni:

Mikið eldingaveður hefur verið á Kili í dag og einnig í gær. Af því tilefni minnnum við á ráðleggingar Almannavarna: Forðist vatn, hæðir í landslagi og berangur. Forðist alla málmhluti svo sem, raflínur, girðingar, vélar, tæki o.s.frv. Haldið ykkur fjarri stórum trjám. Leitið skjóls, ef unnt er, í stærri byggingum eða yfirbyggðu ökutæki úr málmi. Hafið glugga lokaða. Ef grunur leikur á að eldingu slái niður nærri ykkur og þið náið ekki að komast í skjól, ættuð þið að: Krjúpið niður á kné, beygið ykkur fram og styðjið höndum á hnén. Leggist ekki flöt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×